Framkvæmdastjóri Glitnis HoldCo, Ingólfur Hauksson, segir ákvörðun um að fara fram á lögbann á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media hafa verið tekna í samráði við tryggingafélag eignarhaldsfélagsins.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, en þar áréttar Ingólfur að Glitnir Holdco ætli sér að reyna að fá staðfestingu á lögbanninu fyrir dómi. „Þetta var gert til þess að tryggja félagið ef það koma fram einhverjar skaðabótakröfur frá þeim sem mögulega eru í þessum gögnum. Þetta eru upplýsingar sem við höfum og okkur skilst að þessi gögn hafi getað fengist keypt hjá einhverjum aðilum sem við þekkjum ekki til,“ segir Ingólfur, en tryggingarfélagið er breskt, og vildi Ingólfur ekki gefa upp nafn þess.
Eins og kunnugt er, hefur lögbanninu verið kröftuglega mótmælt af hálfu bæði Stundarinnar og Reykjavík Media, og hefur Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl., lögmaður Stundarinnar og Reykjavík Media, sagt að lögbannið sé alltof víðtækt. „Ég er á þeirri skoðun að jafnvel þótt staðfestingarmálið muni tapast fyrir lögbannsbeiðendur, sem mér finnst persónulega líklegra heldur en hitt, að þá erum við samt sem áður núna komin í alvarlegt ástand. Þöggunin á sér stað núna. Lögbannið er á. Það á bara eftir að staðfesta það hjá dómstólum. Lögbannið var lagt á af fulltrúa framkvæmdavaldsins. Dómstólar hafa ekki fengið þetta mat, heldur bara fulltrúi framkvæmdavaldsins. Það er bara alvarlegt. Ég lít svo á að núna séum við að upplifa þöggun,“ sagði Sigríður Rut í viðtali við sjónvarpsþátt Kjarnans, á Hringbraut.
Lögbannið nær til frekari umfjallana sem unnar eru upp úr gögnum frá Glitni, en umfjöllun Stundarinnar hefur verið um Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, og viðskipti hans, fjölskyldu og samstarfsmanna hans, í aðdraganda hrunsins.
Málið var meðal annars rætt á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær.