Karl Steinar Óskarsson, sem gengt hefur starfi framkvæmdastjóra útgáfufélagsins Birtíngs, hefur óskað eftir því að láta af störfum hjá félaginu. Sigríður Dagný Sigurbjörnsdóttir tekur við starfinu af Karli Steinari.
Útgáfufélagið Birtíngur gefur út tímaritin Vikuna, Gestgjafann, Hús og híbýli og fríblaðið Mannlíf sem kom í út nýverið í fyrsta sinn. Mannlíf var unnið í samstarfi við Kjarnann því ritstjórn Kjarnans lagði til fréttaefni og umfjallanir í blaðið.
„Nú þegar endurskipulagningu á rekstri Birtíngs er að mestu lokið þá fannst mér kominn tími til þess að hverfa á önnur mið,“ er haft eftir Karli Steinari í fréttatilkynningu um breytingarnar. Hann hefur leitt vinnu við endurskipulagninguna á rekstri Birtíngs eftir að Dalurinn ehf. keypti allt hlutfé útgáfufélagsins í sumar.
Kjarninn greindi frá því í byrjun sumars að til stóð að Pressan ehf. myndi kaupa Birtíng en að frá því hafi að lokum verið fallið vegna fjárhagsvandræða Pressunnar.
„Birtíngur er kominn á lygnan sjó og tími til komin að aðrir taki við. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa með afburðafólki og kveð það með trega, en óska þeim alls hins besta í framtíðinni,“ segir Karl Steinar.
Sigríður Dagný segist hlakka til að taka við stöðu framkvæmdastjóra: „Með nýjum áherslum og eigendum Birtíngs opnast ýmis spennandi tækifæri sem verður gaman að takast á við.“