Hagnaður á þriðja ársfjórðungi þessa árs dróst saman um helming hjá smásölurisanum Högum sé miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta er fyrsta ársfjórðungsuppgjörið þar sem hægt er að greina rekstur Haga eftir innkomu Costco á vormánuðum.
Um 100 þúsund aðildarkort Costco hafa nú verið seld til einstaklinga og fyrirtækja.
Þó erfitt sé að fullyrða um áhrif Costco á markaðinn í heild, þá leyna áhrifin sér ekki. Rekstur Haga er þó traustur og afkoman góð. Hagnaður á tímabilinu júní til september á þessu ári nam rúmlega 680 milljónum króna en á sama tímabili í fyrra var hagnaðurinn rúmlega 1.200 milljónir.
Í tilkynningu Haga til kauphallar kemur fram að á sex mánaða tímabilinu, mars til lok ágúst á þessu ári, þá dróst sala saman um 8,7 prósent miðað við sama tímabil árið á undan. „Vörusala tímabilsins nam 37.169 milljónum króna, samanborið við 40.712 milljónir króna árið áður. Sölusamdráttur tímabilsins er 4,9%, ef frá er talin aflögð starfsemi. Sölusamdráttur félagsins á tímabilinu í heild er 8,7% í krónum talið. Aflögð starfsemi er verslun Debenhams í Smáralind, Korpuoutlet, Útilíf Glæsibæ, matvöruhluti Hagkaups Holtagörðum, efri hæð Hagkaups Kringlu og tískuverslanir í Smáralind og Kringlu. Í matvöruverslanahluta samstæðunnar er sölusamdráttur í krónum 7,1% en magnminnkun 3,0%. Ef tekið er tillit til aflagðrar starfsemi er sölusamdráttur matvöruverslanahlutans 4,8% en magnminnkun 1,9%. Viðskiptavinum hefur fjölgað á tímabilinu um 0,5% í matvöruverslanahlutanum en að teknu tilliti til aflagðrar starfsemi hefur viðskiptavinum fjölgað um 3,7%,“ segir í tilkynningu Haga til kauphallarinnar.
Heildareignir Haga í lok tímabilsins námu rúmlega 30 milljörðum króna. Fastafjármunir voru 19,4 milljarðar króna og veltufjármunir 11,1 milljarðar.
Eigið fé félagsins var 18,6 milljarðar króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 61 prósent. Markaðsvirði félagsins, í lok dags í dag, nam ríflega 41 milljarði.