Ríkisútvarpið (RÚV) gerir alvarlegar athugasemdir við könnun sem fjölmiðlanefnd lét gera á viðhorfi almennings til hlutlægni í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins á öllum miðlum þess og greiningu á kosningaumfjöllun fréttastofunnar fyrir alþingiskosningar 2016.
Í frétt á vef RÚV segir að rangfærslur í talningu og sú grunnforsenda úttektarinnar að sniðganga hina eiginlegu kosningaumfjöllun RÚV rýri gildið verulega. „Fjölmiðlanefnd hefur birt könnun um viðhorf almennings til hlutlægni í fréttaflutningi vorið 2016 og greiningu á kosningaumfjöllun RÚV í aðdraganda Alþingiskosninga 2016. Ríkisútvarpið fékk kannanirnar til umsagnar og gerði alvarlegar athugasemdir við þær báðar. Þrátt fyrir það hefur fjölmiðlanefnd nú ákveðið að birta þær. Ríkisútvarpið birtir því athugasemdir sínar“.
Athugasemdir RÚV eru hér að neðan:
Handahófskennd og ómarkviss talning - kosningaumfjöllun ekki talin með
„Ríkisútvarpið fékk til yfirlestrar skýrslu sem heitir Greining Creditinfo á kosningaumfjöllun RÚV 2013 og 2016 og er ómarktæk að því leyti að hún tekur ekki til kosningaumfjöllunar RÚV árið 2016. Það hefur nú verið staðfest af Fjölmiðlanefnd sjálfri og Creditinfo sem hafa breytt titli skýrslunnar í Greining á fréttaumfjöllun RÚV í aðdraganda Alþingiskosninga 2013 og 2016. Formleg kosningaumfjöllun fór fram í sérstökum þáttum, leiðtogaumræðum, Forystusætinu, málefnaþáttum og kjördæmaþáttum, samtals hátt í 50 dagskrárliðum á fimm vikna tímabili. Þetta var fjölmiðlanefnd fullkunnugt um enda voru reglur um kosningaumfjöllun RÚV birtar opinberlega fyrir kosningar. Þrátt fyrir það var enginn þessara þátta skoðaður í skýrslu Creditinfo. Þess í stað voru skoðaðar fréttir í völdum fréttatímum og viðtöl í nokkrum reglulegum þáttum í dagskrá RÚV á tveimur vikum af þeim fimm sem kosningumfjöllun RÚV stóð yfir.
Í greiningunni er meðal annars listi yfir 10 algengustu viðmælendur í ljósvakafréttum RÚV. Gerð er athugasemd við talninguna því samkvæmt bókhaldi fréttastofu er rangt farið með talningu í minnst fjórum tilvikum. Samkvæmt því bókhaldi vantar til að mynda formann Sjálfstæðisflokksins á listann og fjöldi viðtala við suma aðra formenn er ofmetinn. Auk þess sem talningin í könnuninni er beinlínis röng, þá skekkja forsendur talningarinnar niðurstöðuna líka verulega. Með því að telja eingöngu viðtöl í völdum fréttatímum dagsins en sleppa öðrum fækkar viðtölum við suma formenn. Auk þess skekkist niðurstaðan verulega við það að takmarka tímabilið sem skoðað er við tvær vikur en ekki þær fimm vikur sem kosningaumfjöllun stóð.
Ítrekaðar langtímakannanir sýna yfirburðatraust til RÚV
Könnun sem fjölmiðlanefnd lét gera um viðhorf almennings til hlutlægni í fréttaflutningi RÚV er framkvæmd á afar óvenjulegum tíma í íslensku samfélagi, eða í maí 2016 – örfáum vikum eftir að Panamaskjölin voru birt, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks féll og boðað var til kosninga. Viðhorf almennings til Fréttastofu RÚV á þeim umrótatímum endurspeglar að mati Ríkisútvarpsins ekki almennt viðhorf almennings til fréttastofunnar. Það vekur athygli að fjölmiðlanefnd hefur ekki látið gera neina samanburðarkönnun síðan til að kanna gildi þeirrar sem gerð var skömmu eftir Panamamálið. Í síðustu reglubundnu könnun MMR um traust til fjölmiðla sem framkvæmd var í maí síðastliðinn var yfirburðatraust til RÚV staðfest enn á ný og þar kom fram að traustið eykst milli ára. 69,3% bera mikið eða mjög mikið traust til RÚV sem ber höfuð og herðar yfir aðra fjölmiðla, en þeir sem næstir komu nutu trausts um 41% þjóðarinnar en það voru Fréttablaðið og mbl.is.
RÚV fagnar því að sjálfsögðu að fjölmiðlanefnd skuli gera kannanir og greiningar um margvíslega þjónustu RÚV og hafi fengið til þess stuðning mennta- og menningarmálaráðuneytisins á þessum tíma. Til að gagn sé af könnunum sem þessum er þó mikilvægt að þær séu gerðar með reglubundnum og sambærilegum hætti og að þær standist aðferðafræðilegar kröfur.“