Að mati Bankasýslu ríkisins er hlutur ríkissjóðs í umfram eigin fé Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka um 120 milljarðar króna. Ríkið á tvo fyrrnefndu bankanna að öllu leyti en 13 prósent hlut í Arion banka. Þetta kemur fram í minnisblaði sem Bankasýslan hefur tekið saman um arðgreiðslugetu viðskiptabankanna þriggja sem ríkissjóður á hlut í árin 2018-2020.
Nokkrir flokkar hafa boðað það í aðdraganda kosninga að þeir ætli sér að auka arðgreiðslur úr bönkunum og „tappa“ þannig af eigin fé þeirra sem er umfram það sem Fjármálaeftirlitið gerir kröfu um. Slíkt er til að mynda hluti af stefnu Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins auk þess sem Vinstri græn hafa boðað slíkar arðgreiðslur einnig.
Í frétt á vef ráðuneytisins segir að samkvæmt matinu sé mismunur á eigin fé bankanna og þeim eiginfjárkröfum sem Fjármálaeftirlitið hefur sett alls um 253 milljarðar króna. Sé tekið tillit til þess að óvarlegt þykir að mæta aðeins lágmarkskröfum um eigið fé er gert ráð fyrir að áætlað umfram eigið fé nemi aldrei lægra hlutfalli en þrjú prósent yfir tilskildu lágmarki. Það svarar til um 183 milljörðum króna. Með hliðsjón af hlutfallslegu eignarhaldi ríkissjóðs á viðskiptabönkunum megi því ætla að hlutur ríkissjóðs í umfram eigin fé, sem skilgreint er með þessum hætti, geti numið um 120 milljörðum króna.
Í fréttinni stendur enn fremur: „Bankasýslan bendir á að mikilvægt sé að halda því til haga að það er á forræði stjórna bankanna, en ekki hluthafa, að leggja fram tillögur um arðgreiðslur. Mat á arðgreiðslugetu til framtíðar er vitanlega háð margvíslegum fyrirvörum, svo sem um að heilbrigt efnahagsástand verði hér næstu árin, að regluverk haldist óbreytt og að fjármálamarkaðir verði opnir fyrir víkjandi lánum til bankanna. Sömuleiðis er bent á þá staðreynd að lækkun eigin fjár í bönkunum leiðir til lækkunar á arðgreiðslugetu síðar.[...]Jafnframt skal minnt á að í fjármálaáætlun 2018-2022, sem samþykkt var á Alþingi sl. vor, er gert ráð fyrir 140 ma.kr. óreglulegum tekjum ríkissjóðs á gildistíma áætlunarinnar. Var þar einkanlega horft til arðgreiðslna frá bönkunum. Má því segja að þegar sé búið að gera ráð fyrir ráðstöfun verulegs hluta af væntanlegum arðgreiðslum viðskiptabanka í eigu ríkisins í tekjuáætlunum fyrir ríkissjóð á komandi árum.“