Áherslur Pírata fá hæstu einkunn í úttekt loftslagsbloggsins Loftslag.is á stefnu allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram í Alþingiskosningunum á laugardaginn.
Allir flokkar fengu sex spurningar sendar þar sem óskað var eftir útlistun á stefnu og afstöðu flokkanna á afmörkuðum sviðum tengdum loftslagsmálum. Svörin sem metin voru má lesa á loftslagsblogginu. Allir flokkar svöruðu spurningunum nema Miðflokkurinn og Flokkur fólksins. Þeir flokkar fá þess vegna 0 í úttektinni.
Niðurstöður úttektar á stefnu framboða í loftslagsmálum
Spurningarnar sem lagðar voru fyrir framboðin voru sex talsins. Við úrvinnslu vógu svörin við spurningunum mis mikið. Spurningarnar og vægi þeirra voru eftirfarandi:
- Er flokkurinn með eða á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu? (tvöfalt vægi)
- Eru tölu- og/eða tímasett markmið varðandi samdrátt í losun CO2? (tvöfalt vægi)
- Er gert ráð fyrir kolefnisgjaldi eða hagrænum hvötum á losun gróðurhúsalofttegunda? (tvöfalt vægi)
- Tillögur um breytingu innviða til að taka á vandanum. (einfalt vægi)
- Tillögur varðandi endurheimt votlendis og skógrækt. (tvöfalt vægi)
- Annað almennt um loftslagsmál. (einfalt vægi)
„Átta flokkar standast prófið eins og staðan er í dag og eru Píratar með metnaðarfyllstu stefnuna miðað við þetta rýni,“ segir á loftslagsblogginu. Til þess að standast matið þurfti framboð að fá að minnsta kosti 5 í einkunn. „Lítið vantar upp á að Sjálfstæðisflokkurinn standist matið og virðist bara lítillega vanta upp á metnaðinn við að setja skýrari markmið og aðeins ítarlegri stefnu.“
100 stig í pottinum
„Til að gefa flokkunum einkunn þá notuðum við kerfi þar sem við mátum þessa 6 mismunandi þætti og gáfum þeim einkunn á bilinu 0-10, en misjafnt vægi er á milli þátta. Tveir þættir fá einfalt vægi (mest 10 stig hver þáttur) og fjórir þættir fá tvöfalt vægi (mest 20 stig hver þáttur) – 100 stig í allt,“ er skrifað á loftslagsbloggið.
Aðstandendur loftslagsbloggsins lögðu svo mat á hvern þátt og það sem kom fram hjá hverjum flokki. Einkunnir voru svo gefnar út frá því.
„Það var mjög ánægjulegt að flestir flokkar svöruðu og lögðu greinilega hugsun og vinnu í svörin. Auðvitað verður matið að einhverju leyti huglægt, en við teljum að þessi nálgun gefi nokkuð gott viðmið varðandi loftslagsstefnur flokkanna og hvernig þeir standa innbyrðis.“