Vefsíðan Dress Up Games, sem er í eigu bókasafnsfræðingsins Ingu Maríu Guðmundsdóttur á Ísafirði, hefur gengið vel á síðustu árum, en hagnaður félagsins sem heldur utan um vefinn, Dress Up Games ehf., nam 5,3 milljónum króna í fyrra samkvæmt ársreikningi.
Hagnaðurinn hefur dregist nokkuð saman, frá því sem áður, var en efnahagur félagsins er traustur. Arðgreiðslur hafa numið 350 milljónumá undanförnum sjö árum, og hefur árlegur hagnaður á bestu rekstrarárum farið yfir 100 milljónir króna.
Sögu Dress Up Games má rekja til ársins 1998 þegar vefurinn var stofnaður, en á því ári var Google einnig stofnað, en uppspretta tekna fyrirtækisins er í gegnum auglýsingakerfi Google. Árið 2006 hófst framleiðsla á leikjum fyrir vefinn.
Á vefsíðunni er tenglum á tölvuleiki þar sem dúkkulísur eru klæddar í föt safnað saman. Markhópurinn eru stúlkur í enskumælandi löndum, ekki síst Bandaríkjunum, Bretlandi og Ástralíu. Dress Up Games er síðan með auglýsingasamning við Google sem tryggir því tekjur. Samningurinn virkar þannig að Google AdWords selur auglýsingar inn á síðuna og Dress Up Games ehf. fær síðan greitt fyrir hvert skipti sem einhver skoðar þá auglýsingu.
Vefsíðan fær milljónir innlita, og er með tugmilljónir flettinga, í hverjum mánuði og því hafa tekjurnar verið miklar.
Hugmyndin að vefsíðunni er alfarið Ingu Maríu, og hefur hún byggt upp starfsemina í kringum vefinn frá grunni.