Kjarninn miðlar, móðurfélag Kjarnans, hefur stefnt Seðlabanka Íslands og fer fram á að ógilt verði með dómi sú ákvörðun bankans að hafna kröfu Kjarnans um aðgang að hljóðritun og afritum af símtali milli þáverandi formanns Seðlabanka Íslands, Davíðs Oddssonar, og þáverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, sem átti sér stað 6. október 2008. Enn fremur gera Kjarninn kröfu um að viðurkenndur sé réttur Kjarnans til aðgangs að hljóðritun og afritum af símtalinu. Í því er rætt um veitingu 500 milljón evra neyðarláns til Kaupþings sem kostaði skattgreiðendur á endanum 35 milljarða króna.
Kjarninn óskaði eftir því með tölvupósti þann 6. september 2017 að fá aðgang að hljóðrituninni. Tilgangurinn var að upplýsa almenning um liðna atburði og vegna þess að framundan var birting á tveimur skýrslum, þar af önnur sem unnin er af Seðlabankanum, þar sem atburðir tengdir símtalinu verða til umfjöllunar. Beiðnin var rökstudd með því að um væri að ræða einn þýðingarmesta atburð í nútíma hagsögu sem hefði haft í för með sér afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskan almenning. Seðlabankinn hafnaði beiðninni þann 14. september síðastliðinn og byggði þá ákvörðun einvörðungu á því að þagnarskylda hvíldi yfir umræddum upplýsingum.
Stefnan var birt fyrirsvarsmanni Seðlabankans á miðvikudag og hún lögð fram í héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag.