Á árunum 2014–2016 stundaði helmingur fyrirtækja á Íslandi með 10 starfsmenn eða fleiri nýsköpun þar sem nýjar vörur eða þjónusta var sett á markað eða nýir verkferlar innleiddir.
Þetta er svipuð niðurstaða og í fyrstu mælingu Hagstofunnar árin 2012–2014, en greint var frá niðurstöðunum á vef Hagstofunnar í gær.
Þriðjungur fyrirtækja setti nýja vöru eða þjónustu á markað eða endurbætti eldri vöru eða þjónustu. „Gat það þó verið nýjung hjá fyrirtækinu sjálfu án þess að vera nýjung á markaðnum, en 25% fyrirtækja settu á markað vörur eða þjónustu sem voru nýjungar á markaði. Jafnframt innleiddi þriðjungur fyrirtækja nýja verkferla á tímabilinu. Hjá 31% fyrirtækja var einhver nýsköpunarstarfsemi sem leiddi ekki til þess að vörur eða þjónusta var sett á markað eða verkferlar innleiddir á tímabilinu,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar um þess mál.
Auk nýsköpunar vöru, þjónustu og verkferla gátu fyrirtæki hafa innleitt nýtt starfskipulag eða nýjungar í markaðssetningu. Um 31 prósent fyrirtækja innleiddu þannig nýtt starfskipulag á tímabilinu, en 27 prósent innleiddu nýjungar í markaðssetningu.
Ef þess konar nýsköpun er talin með sem nýsköpun almennt, auk nýsköpunar vöru, þjónustu og verkferla, voru 55 prósent fyrirtækja virk í nýsköpun á tímabilinu í stað 50 prósent. Var það hlutfall 59% á árunum 2012–2014 þar sem nýsköpun skipulags og markaðssetningar var algengari þá.
Í nýjastasjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut er fjallað töluvert um nýsköpun og menntamál, ekki síst í samhengi við miklar breytingar sem eru að verða í atvinnulífi vegna tækniframfara. Ragnheiður M. Magnúsdóttir, stjórnandi hjá Marel, er gestur þáttarins.