Tólf einstaklingar hafa látist í fangelsum síðan árið 1993. Þetta kemur fram í svari Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur þingmanns Pírata sem birtist á vef Alþingis í gær.
Þórhildur Sunna spurði hversu margir einstaklingar hafi látið lífið á meðan þeir voru í vörslu lögreglu frá árinu 1965 og innan veggja íslenskra fangelsa og var óskað eftir sundurliðað eftir árum. Hún spurði jafnframt í hversu mörgum tilfellum hafi rannsókn farið fram á málsatvikum og aðdraganda andláts viðkomandi aðila og hverjir fari með rannsókn slíkra mála.
Einnig var spurt hvort lögreglan, saksóknari eða einhver annar aðili annist slíkar rannsóknir og hvernig slíkar rannsóknir séu framkvæmdar.
Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá viðeigandi embættum vegna fyrirspurnarinnar og er svarið unnið í samræmi við þær upplýsingar sem bárust. „Vegna þess tíma sem svörum við skriflegum fyrirspurnum er markaður reyndist ekki unnt að bíða frekari upplýsinga og tekur svar ráðherra mið af því.“
Í svarinu segir að fangelsismálastofnun ríkisins hafi verið stofnuð árið 1989 en fyrir þann tíma annaðist dómsmálaráðuneytið daglega yfirstjórn á rekstri fangelsa. Gögn er varði fjölda andláta í fangelsum frá árunum 1965 til 1988 eru vistuð í Þjóðskjalasafni Íslands en ekki vannst tími til að afla þeirra gagna við vinnslu svarsins.
Fjöldi andláta í fangelsum frá stofnun Fangelsismálastofnunar ríkisins 1. janúar 1989 hefur verið sem hér segir:
1993: 1 einstaklingur
1998: 3 einstaklingar
2004: 1 einstaklingur
2005: 1 einstaklingur
2007: 2 einstaklingar
2012: 1 einstaklingur
2013: 2 einstaklingar
2017: 1 einstaklingur lést á sjúkrahúsi í kjölfar sjálfsvígstilraunar í fangelsi tveimur dögum áður.
Andlát í vörslu lögreglu og í fangelsum voru rannsökuð hjá lögreglu til 1. júlí 1997 en af ríkissaksóknara frá þeim tíma til 1. janúar 2016, segir í svari dómsmálaráðherra. Þá hafi embætti héraðssaksóknara tekið við rannsókn slíkra mála.
Með lögum 2016 hafi verið sett á fót eftirlitsnefnd með störfum lögreglu og sé hlutverk hennar meðal annars að taka til athugunar mál þegar maður lætur lífið í tengslum við störf lögreglu óháð því hvort grunur er um refsivert brot.
Eftir sem áður fari héraðssaksóknari með rannsókn slíkra mála. Um framkvæmd þeirra gildi almennar reglur um rannsóknir slíkra mála. Í svarinu kemur enn fremur fram að ekki hafi verið unnt að svara nánar um framkvæmdir einstakra rannsókna.