Á árunum 2012 til 2017 hafa fallið átta dómar Mannréttindadómstóls Evrópu í málum er varða vernd tjáningarfrelsis fjölmiðlafólks á Íslandi. Í sex tilvikum hefur Mannréttindadómstóllinn dæmt íslenska ríkinu í óhag en í tveimur tilvikum hefur íslenska ríkið verið sýknað.
Þetta kemur fram í skýrslu um nýlega dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum er varða vernd tjáningarfrelsis fjölmiðlafólks á Íslandi á vegum Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands sem birt var í dag.
Mannréttindadómstóllinn komst í nokkrum tilvikum að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks með því að gera það ábyrgt fyrir ummælum sem höfð voru eftir nafngreindum viðmælendum.
Áréttaði dómstóllinn að í dómum hans hefði áður verið komist að þeirri niðurstöðu að sterkar ástæður þyrftu að koma til svo blaðamenn yrðu látnir bera ábyrgð í slíkum tilvikum. Þar sem slíkar ástæður hefðu ekki verið fyrir hendi var talið að brotið hefði verið gegn tjáningarfrelsi viðkomandi blaðamanna og ritstjóra.
Íslenskir dómstólar vanræktu að taka afstöðu
Íslenskir dómstólar litu ekki ávallt til allra þeirra sjónarmiða sem ber að taka afstöðu til, samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstólsins, þegar metið er hvort takmörkun á tjáningarfrelsi sé nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi. Segir í skýrslunni að stundum hafi íslenskir dómstólar vanrækt að taka afstöðu til þess hvort þau málefni sem voru til umfjöllunar fjölmiðla hefðu átt erindi við almenning eða ekki.
Ekki hafi alltaf verið tekin afstaða til stöðu og fyrri hegðunar þess einstaklings sem fjallað var um. Þá hafi í sumum málanna verið vanrækt að taka afstöðu til vinnubragða fjölmiðla sem báru þess merki að fjölmiðlafólk hefði unnið störf sín í góðri trú og gætt jafnvægis í umfjöllun sinni. Í þeim málum sem skýrslan fjallar um lagði Mannréttindadómstóllinn sjálfur oft mat á umrædd sjónarmið og benti á að þau stæðu til þess að ekki hefði verið nauðsynlegt í lýðræðislegu þjóðfélagi að takmarka tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks.
Ummæli ekki jafn meiðandi og íslenskir dómstólar lögðu til grundvallar
Í þriðja lagi fann Mannréttindadómstóllinn að því hvaða skilning íslenskir dómstólar lögðu í ýmis þeirra ummæla er málun lutu að. Virðist þannig sem Mannréttindadómstóllinn hafi verið ósammála mati íslenskra dómstóla á efnislegu inntaki sumra ummælanna.
Þetta ólíka mat hafði þau áhrif annars vegar að Mannréttindadómstóllinn taldi að ummælin hefðu ekki verið jafn meiðandi og íslenskir dómstólar lögðu til grundvallar en hins vegar að ummælin hefðu átt sér nægjanlega stoð í upplýsingum sem lágu fyrir því fjölmiðlafólki sem í hlut átti.
Öll málin komin til vegna meiðyrðamála
Samkvæmt skýrslunni var markmið rannsóknarinnar er að leita svara um orsakir þess að Mannréttindadómstóllinn hefur ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi brotið gegn tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks, svo og hvað greinir sýknudóma frá áfellisdómum.
Öll málin sem voru til skoðunar í skýrslunni eru til komin vegna meiðyrðamála sem höfðuð voru fyrir íslenskum dómstólum gegn frétta- eða blaðamönnum, ritstjórum eða greinarhöfundum vegna tiltekinna ummæla um nafngreinda einstaklinga sem birtust í íslenskum fjölmiðlum, segir í skýrslunni.
Í umræddum málum féllust íslenskir dómstólar á að málshöfðun lyti að minnsta kosti að hluta til að tilteknum ummælum þar sem þeir einstaklingar, sem fjölmiðlar hefðu fjallað um, hefðu verið sakaðir um refsivert athæfi, væru til rannsóknar vegna slíkrar háttsemi eða tengdust glæpastarfsemi.
Í öllum tilvikum var fjölmiðlafólki gert að greiða stefnendum miskabætur og málskostnað auk þess sem hin umdeildu ummæli voru dæmd dauð og ómerk. Það fjölmiðlafólk sem laut í lægra haldi í þessum málum kærði niðurstöðurnar til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Íslenskir dómstólar líta til dóma ME í auknum mæli
Í skýrslunni er gerð grein fyrir íslenskum reglum sem gilda um æruvernd, tjáningarfrelsi, friðhelgi einkalífs og ábyrgð á efni fjölmiðla í íslenskum rétti. Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur formlega séð ekki stöðu sem stjórnarskipunarlög en ljóst er að með breytingu sem gerð var á mannréttindakafla íslensku stjórnarskrárinnar árið 1995 stóð vilji stjórnarskrárgjafans til þess að mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar yrði veitt sama efnislega inntak og samsvarandi reglum sáttmálans.
Í skýrslunni segir að íslenskir dómstólar hafi haft tilhneigingu til að túlka stjórnarskrána í samræmi við dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins. Hafi íslenskir dómstólar þannig í auknum mæli litið til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.
Dómstóllinn veitti íslenskum dómstólum rýmra svigrúm
Í skýrslunni eru rakin atvik málanna og forsendur Mannréttindadómstóls Evrópu og niðurstöður dómstólsins síðan greindar. Þá eru dómarnir einnig settir í samhengi við þróun í dómum Mannréttindadómstólsins sjálfs.
Dómstóllinn hefur á síðastliðnum árum veitt aðildarríkjum sáttmálans rýmra svigrúm til mats og meira hefur þurft að koma til svo dómstóllinn endurskoði afstöðu innanlandsdómstóla hafi þeir beitt sömu aðferð og dómstóllinn sjálfur við framkvæmd matsins.
Birtist þessi þróun meðal annars í þeim dómum er varða Ísland og eru til umfjöllunar í skýrslunni. Virðist þannig sem dómstóllinn hafi gefið íslenskum dómstólum rýmra svigrúm til mats í hinum nýrri dómum en þeim eldri. Þá hafa dómar dómstólsins verið skýrari um þá aðferð sem hann beitir þegar metið er hvort takmörkun tjáningarfrelsis sé nauðsynleg til verndar friðhelgi einkalífs.
Settar fram leiðbeiningar til hliðsjónar
Í skýrslunni er bent á að þess sjáist merki að íslenskir dómstólar hafi síðastliðin ár að einhverju marki tekið mið af þeim áfellisdómum sem íslenska ríkið hefur fengið á sig. Vegna annmarka sem voru á íslenskum dómsúrlausnum eru í skýrslunni settar fram eftirfarandi leiðbeiningar sem hafa má til hliðsjónar þegar íslenskir dómstólar standa frammi fyrir því að meta hvort nauðsynlegt teljist í lýðræðislegu þjóðfélagi að takmarka tjáningarfrelsi:
Skýrsluhöfundar telja að gæta þurfi að þeim sjónarmiðum sem Mannréttindadómstóllinn hefur sérstaklega tilgreint að þurfi að taka mið af við slíkt mat. Umrædd sjónarmið séu hvort efni umfjöllunar teljist framlag til almennrar umræðu, hver sé staða og fyrri hegðun þess einstaklings sem fjallað er um, hvernig upplýsinga var aflað og þær sannreyndar, hvert sé efni, form og afleiðingar af birtingu efnis og loks hvert sé eðli viðurlaga og hversu íþyngjandi þau séu.
Meta ummæli með hliðsjón af umfjöllun
Í fyrsta lagi geti dómstólar rökstutt ítarlegar en gert hefur verið hvernig ummæli verði skilin á þann hátt að með þeim hafi nafngreindum einstaklingi verið gefin að sök refsiverð háttsemi. Mætti þannig heimfæra ummælin til almennrar verknaðarlýsingar og jafnvel vísa til tiltekins refsiákvæðis.
Samkvæmt skýrsluhöfundum ætti í öðru lagi að meta ummæli með hliðsjón af umfjöllun í heild sinni. Þar sem hægt sé að túlka ummæli á mismunandi vegu ætti að leitast við að veita þeim ekki meira meiðandi merkingu en leiðir af umfjölluninni að öðru leyti. Aðrar upplýsingar sem er að finna í umfjölluninni kunni að skýra hvað býr að baki ummælunum. Tilefni geti verið til að líta svo á að ummæli feli frekar í sér gildishlaðna lýsingu á fyrirliggjandi staðreyndum en staðhæfingu um staðreyndir. Sé sérstaklega tilefni til að gæta að þessu þegar um er að ræða málefni sem varðar almenning.
Í þriðja lagi ætti ekki að gera þá kröfu til þeirra sem tjá sig á opinberum vettvangi að þeir gæti fyllstu nákvæmni um hugtök sem kunna að hafa sértæka merkingu á fagsviðum. Sérstaklega verði ekki gerð sú krafa til almennings eða blaðamanna að notuð séu nákvæmlega rétt lögfræðileg hugtök þótt sakamál séu til umfjöllunar.