Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kom á Bessastaði til fundar við forseta Íslands fyrr í dag sat Inga Sæland, formaður Flokks fólksins í aftursæti bifreiðar hans. Eftir fundinn með forsetanum, þar sem væntanleg stjórnarmyndun var rædd, sagði Sigmundur Davíð að þau hafi verið á leynifundi sem ekki hafi gefist tími til að klára áður en að fundurinn með forsetanum hófs.
Inga Sæland sagði í samtali við RÚV að flokkarnir ættu margt sameiginlegt. „Miðflokkurinn og Flokkur fólksins geta vel verið samstíga, hvort sem það er í stjórnarandstöðu eða í stjórn.“
Flokkarnir tveir fengu samtals ellefu þingmenn í kosningunum á laugardag og um 18 prósent atkvæða. Niðurstaða þeirra er nánast sú sama og Viðreisn og Björt framtíð fengu í kosningunum í fyrra og fjöldi þingmanna nákvæmlega sá sami. Þá ákváðu þeir tveir flokkar að bindast böndum um stjórnarmyndun sem skilaði þeim á endanum í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, sem sat í um átta mánuði.
Bandalag Miðflokks og Flokks fólksins getur ekki myndað ríkisstjórn með neinum einum flokki, í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fimm þingmönnum í kosningunum um helgina. Því myndi þurfa tvo flokka til að vinna með þeim til að skila þeim í ríkisstjórn.