Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Vinstri grænna, hefur boðað til fundar í kvöld til að ræða mögulegt kvennaframboð, í ljósi niðurstöðu kosninganna á laugardaginn, þar sem staða kvenna á Alþingi versnaði til muna.
Sérstaklega versnaði staðan í þingflokki Sjálfstæðisflokksins mikið, en af 16 eru 12 karlar og 4 konur. „Niðurstaða kosninganna liggur fyrir. Þrátt fyrir aðdraganda stjórnarslitanna, #höfumhátt og háværa kröfu kvenna um breytt samfélag hefur orðið alvarlegt bakslag í jafnréttismálum,” segir á Facebook-síðu viðburðarins, en til stendur að hittast á Mímisbar á Hótel Sögu, klukkan 20:00.
Ok. Kvennalisti er málið. Strax í vor. #kosningar
Posted by Sóley Tómasdóttir on Saturday, October 28, 2017
Hlutfall kvenna á þingi fór úr 47 prósent í 38 prósent. „Er ekki orðið fullreynt að breyta kynjuðu samfélagi gegnum blandaða flokka? Þrátt fyrir vilja og kraft róttækra kvenna í öllum flokkum, þá er femínisminn ekki raunverulegt baráttumál neins þeirra. Enginn flokkur tók af myndugleik á jafnréttismálum í kosningabaráttunni, heldur var femínisminn jaðarmál sem einstökum talskonum flokkanna var falið að sjá um á meðan hinir ræddu „alvörumálin”.
Kvennaframboð sem setur öryggi, aðstæður og tækifæri kvenna af öllum gerðum og stærðum á oddinn er möguleiki sem vert er að athuga nánar. Fundum strax á meðan reiðin ólgar - og reynum að beina henni inn í jákvæðan farveg í þágu okkar allra?
Áfram stelpur!“ segir á Facebook síðu viðburðarins.