Hópur sérfræðinga á sviði vísindamisferlis innan sænsku siðanefndarinnar (Centrala etikprövningsnämnden) hefur að lokinni rannsókn á vísindamisferli ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarinis, sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að Macchiarini og samstarfsmenn hafi gerst sekir um misferli í tengslum við birtingu vísindagreina um plastbarkaaðgerðir sínar. Veigamesta greinin birtist í hinu virta læknisfræðitímariti Lancet og eru tveir íslenskir læknar meðhöfundar að henni. Rannsóknin var framkvæmd að beiðni Karolinska-stofnunarinnar.
Hópurinn tilnefndi tvo utanaðkomandi sérfræðinga sér til ráðuneytis, vísindamennina Martin Björck, prófessor við Uppsala-háskóla og Detlev Ganten, prófessor í Berlín.
Niðurstaða hópsins var kynnt í gær en um er að ræða sex vísindagreinar sem allar fjalla um ígræðslu plastbarka í fólk.
Árið 2015 rannsakaði Bengt Gerdin prófessor þessar vísindagreinar og komst að þeirri niðurstöðu að um vísindalegt misferli væri að ræða í öllum sex greinunum. Engu að síður hreinsaði Karolinska-stofnunin Paolo Macchiarini og meðhöfunda hans af öllum ásökunum.
Karolinska-stofnunin lét hefja rannsókn á málinu á ný eftir að þættir Bosse Lindquist og samstarfsmanna í sænska sjónvarpinu (SVT) höfðu varpað nýju ljósi á málið. Var Karolinska-stofnunin sökuð um að þagga málið niður.
Tveir íslenskir læknar eru meðhöfundar að fyrstu greininni (Proof-of-Concept) sem birtist í hinu virta læknisfræðitímariti Lancet, þeir Tómas Guðbjartsson prófessor og Óskar Einarsson læknir. Greinin fjallar um fyrstu plastbarkaígræðsluna á heimsvísu sem Macchiarini gerði en sjúklingurinn var Erítreumaðurinn Andemariam Beyene, sem stundaði í meistaranám í jarðfræði við Háskóla Íslands. Andemariam stríddi við krabbamein í barka og var Tómas Guðbjartsson læknir hans.
Sænski sérfræðingahópurinn segir að í vísindagreinunum sé lýst góðum árangri af plastbarkaígræðslunum en að staðreyndirnar tali öðru máli. Enn fremur að upplýsingarnar í greinunum séu villandi og gefi til kynna betra ástand sjúklinga en raunin var. Þá hafi upplýsingum verið leynt í þessu skyni.
Sérfræðingahópurinn kemst að því að allir meðhöfundar greinanna sex séu sekir um vísindaleg misferli. Ábyrgð einstakra höfunda sé þó mismunandi. Meginábyrgðin liggi hjá Paolo Macchiarini sem aðalhöfundi og leiðtoga rannsóknarteymisins og öðrum sem gegndu mikilvægu hlutverki í rannsóknunum og ritun greinanna. Nánari ákvörðun varðandi ábyrgð og afleiðingar fyrir hlutaðeigandi höfunda sé í höndum stofnana sem þeir starfa hjá.
Sérfræðingahópurinn óskar eftir útgefendur afturkalli allar greinarnar sex. Í tilviki íslensku læknanna eru það væntanlega Háskóli Íslands og Landspítali.