Óttarr Proppé er hættur sem formaður Bjartrar framtíðar. Hann tilkynnti flokksmönnum þetta í bréfi sem hann sendi þeim fyrr í dag. Þar segir hann að úrslitin í nýliðnum kosningum hafi verið ömurleg fyrir Bjarta framtíð og að honum finnist eðlilegt að axla ábyrgð á þeim með því að segja af sér formennsku. Björt framtíð fékk einungis 1,2 prósent atkvæða um helgina og féll út af þingi.
Óttar tók við formennsku í Bjartri framtíð fyrir tveimur árum síðan þegar Guðmundur Steingrímsson hætti sem formaður. Hann leiddi Bjarta framtíð í gegnum kosningarnar í fyrr aþar sem flokkurinn náði fjórum mönnum á þing. Sú niðurstaða skilaði flokknum á endanum í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn.
Sú ríkisstjórn sat einungis í um átta mánuði. Björt framtíð sprengdi stjórnarsamstarfið um miðjan september í kjölfar uppreist-æru málsins. Sú ákvörðun leiddi til kosninga sem þurrkaði Bjarta framtíð út af þingi. Óttarr segir í bréfinu að ákvörðun að sú ákvörðun hafi verið rétt. „Það var brotið blað í íslenskum stjórnmálum þegar við ákváðum að slíta ríkisstjórnarsamstarfi vegna leyndarhyggju samstarfsfólks og trúnaðarbrests tengdum kynbundnu ofbeldi. Það fordæmi mun hafa áhrif til langframa.“
Bréf Óttarrs í heild sinni:
Kæru félagar.
Úrslit alþingiskosninga á laugardag voru sérstaklega ömurleg fyrir flokkinn okkar og þá umhverfisvænu frjálslyndispólitík sem við stöndum fyrir. Mér finnst eðlilegt að axla ábyrgð á þessari stöðu og segja af mér embætti formanns Bjartrar framtíðar. Verkefnin framundan eru stór og mikilvæg. Það fer betur á því að aðrir leiði þá endurskoðun og uppbyggingu sem framundan er.
Síðustu tvö ár hafa verið viðburðarík og söguleg. Björt framtíð hefur fengið tækifæri til þess að hafa töluverð áhrif í gegnum störf á Alþingi og í ríkisstjórn. Það var brotið blað í íslenskum stjórnmálum þegar við ákváðum að slíta ríkisstjórnarsamstarfi vegna leyndarhyggju samstarfsfólks og trúnaðarbrests tengdum kynbundnu ofbeldi. Það fordæmi mun hafa áhrif til langframa.
Póitískar áherslur Bjartrar framtíðar og gildi hafa haft mikil áhrif á stuttum tíma. Við höfum áorkað ýmsu í því yfirlýsta markmiði okkar að breyta stjórnmálunum. Það hefur verið mikill heiður að njóta trausts og fá tækifæri til að taka þátt í því.
Það er augljóst að þátttaka í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hafði mikil neikvæð áhrif á traust til Bjartar framtíðar. Það var nær ómögulegt að vekja athygli á málefnum og áherslum flokksins í aðdraganda kosninganna. Það er miður.
Það er auðvelt að vera vitur eftir á. Augljóst er að róttæk naflaskoðun er framundan. Ég hóf þátttöku í stjórnmálum til að gera gagn. Það er hægt að gera á ýmsa vegu. Í þessum kosningum gerði formennska mín flokknum ekki gagn. Við slíkar aðstæður gerir það hugsjónunum ógagn að rembast eins og rjúpa við staur. Þá er betra að rétta keflið áfram og hjálpa til á annan hátt.
Úrslit kosninga eru áhyggjuefni og ekki bara fyrir okkar flokk. Það eru grundvallarbreytingar í loftinu og ekki allar jákvæðar. Gildi og áherslur Bjartrar framtíðar skipta máli fyrir samfélagið.
Ég þakka ykkur öllum stuðninginn og samferðina. Þetta hefur verið mikið tripp og lyginni líkast á köflum. Hjartað ólmast af þakklæti og líka af spenningi fyrir framtíðinni. Það er allt hægt ;)
ást og virðing,
Óttarr