Johan Hendrik Egholm forstjóri Skeljungs og Johnni Poulsen forstjóri dótturfélagsins P/F Magn, högnuðust á skammtímaviðskiptum sínum með hlutabréf í Skeljungi um 223 milljónir króna, að því er Viðskiptablaðið greinir frá. Hagnaður þeirra af viðskiptunum var um 260 prósent á einungis nokkrum klukkutímum, að því er fram kemur í umfjöllun á vef blaðsins.
Fengu Færeyingarnir tveir hlutina á 2,8 krónur hvern hlut samkvæmt kauprétti, en selja þá nú á 7,30 krónur hvern hlut, að því er kemur fram í tilkynningu til kauphallar.
Það er ríflega 258% verðhækkun á nokkrum klukkutímum.
Keypti hvor um sig 26,2 milljónir hluti en nú hefur forstjóri Skeljungs selt alla nema 1,6 milljónir af sínum hlutum, meðan forstjóri Magn hefur selt alla sína hluti.
Kjarninn sendi Gildi lífeyrissjóði, sem er stærsti eigandi meðal lífeyrissjóða í félaginu með 7,1 prósent hlut, fyrirspurn um þessi viðskipti, og hvort þau væru sjóðnum að skapi og í takt við stefnu sjóðsins, þegar kemur að kaupréttum. Fyrirspurninni hefur ekki verið svarað ennþá.
Íslenskir lífeyrissjóðir hafa lagt upp með það í sinni stefnu, að kaupréttarkerfi fyrir stjórnendur fari saman við aðra hluthafa, og séu hugsaðir til lengri tíma.
Skeljungur hefur boðað að vörumerkinu Skeljungi verði lagt og eftirleiðis verði Orkan helsta vörumerki félagsins, og eldsneyti selt undir því merki. Samtals var 29 starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp á dögunum vegna hagræðingar stjórnendanna og endurskipulagningar.
Stærsti einstaki hluthafinn í félaginu eru félagið SÍA II slhf. með 14,53 prósent hlut. Arion banki á 7,7prósent og síðan koma lífeyrissjóðir með á bilinu 5,4 prósent til 7,1 prósent hlut. Um 60 prósent af hlutafénu skiptist síðan á hluthafa sem eiga minna.
Skeljungur er skráð félag og nemur markaðsvirði félagsins nú 14,9 milljörðum króna.