„Ég horfði á vinkonu mína í Kastljósinu í kvöld og eins og alltaf var Unnur Brá Konráðsdóttir málefnaleg og flott. Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi fékk sína verstu útkomu síðan kjördæmið var stofnað og missti sinn öflugasta þingmann. Veruega fúlt og umhugsunarvert.“
Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook síðu sinni. Megn óánægja er innan Sjálfstæðisflokksins vegna þess hversu fáar konur komust á þing fyrir flokkinn, en af 16 manna þingflokki flokksins eru 12 karlar og 4 konur.
Fyrir ofan Unni Brá, sem var forseti Alþingis á nýliðnu þingi, voru Páll Magnússon, Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason.
Á Facebook síðunni fóru fram fjörugar umræður um stöðuna innan flokksins í gærkvöldi, og hversu verulega hallaði á konur.
Þórey Vilhjálmsdóttir, sem var aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra á tímabili, gagnrýndi þessa stöðu harðlega. „Sjálfstæðisflokkurinn ætti að skammast sín að stilla þessum frábæra fulltrúa upp í 4.sætið á eftir þremur körlum. Miðaldra íhaldsamir karlar virðast eiga Sjálfstæðisflokkinn, ég held að ásýnd flokksins hafi sjaldan verið verri svona á seinni tímum. Ég hef engar áhyggjur af Unni Brá, sammála þér Ragnheiður, hún mun eiga farsælan feril, alveg sama hvað hún tekur sér fyrir hendur. Það er gríðaleg eftirsjá af henni á þinginu eins og ykkur öllum konunum sem flokkurinn hefur hrakið frá sér á síðustu misserum,“ segir Þórey.
Á Alþingi eru nú 40 karlar og 23 konur, og versnaði hlutfallið til muna, sé horft til síðustu kosninga, en hlutfallið er nú svipað og árið 2007.
Hjá Miðflokknum eru sjö þingmenn, sex karlar og ein kona, og hjá Flokki fólksins eru þrír karlar og ein kona.
Hlutföllin eru betri hjá öðrum öðrum flokkum.
Hjá Vinstri grænum eru 6 konur og 5 karlar, hjá Framsóknarflokknum eru 5 konur og 3 karlar, hjá Samfylkingunni 3 karlar og 4 konur, hjá Viðreisn tvær konur og tveir karlar og hjá Pírötum eru tvær konur og fjórir karlar.