Donald J. Trump Bandaríkjaforseti ætlar sér að útnefna Jerome Powell sem næsta seðlabankastjóra Bandaríkjanna, að því er Wall Street Journal greindi frá í dag, og staðfesti þannig orðróm um að Powell verði næsti aðastjórnandi þessa valdamesta seðlabanka heimsins.
Á blaðamannafundi í dag hrósaði Trump núverandi seðlabankastjóra, Janet Yellen, fyrir hennar störf, en hann hefur margítrekað gagnrýnt hana og seðlabankann fyrir stefnu bankans eftir fjármálakreppuna fyrir nær áratug. Að því leytinu var hrósið í dag í fullkominni mótsögn við fyrri orð hans.
Meðaltalshagtölur sína að bandarískur efnahagur hefur sjaldan verið sterkari, en atvinnuleysi mælist nú 4,2 prósent heilt yfir landið, og hagvöxtur hefur verið viðvarandi níu ár í röð.
Yellen hefur sagt að nú sé tímabært að breyta um stefnu, en bankinn hefur fylgt endurreisnaráætlun við vaxtaákvarðanir sína og í annarri vinnu.
Á vef Bloomberg segir að Trump hafi ekki viljað svara því skýrt, hvort hann væri með þessu hrósi í garð Yellen, að segjast ætla að endurskipa hana.
Eins og áður segir er nú talið að Powell verði útnefndur, en hann þykir vel tengdur á Wall Street og innan Repúblikanaflokksins. Hann hefur unnið náið með Yellen innan bandaríska seðlabankans og hefur stutt hana og stefnu hennar út á við.
Samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal hefur Trump sagt samstarfsmönnum sínum að Powell sé „hans maður“ og að hann fái stuðning hans til að gegna stöðu seðlabankastjóra.
Óhætt er að segja að Seðlabanki Bandaríkjanna sé valdamikil stofnun, en yfir 60 prósent af gjaldeyrisforða heimsins er í Bandaríkjadal. Stefna bankans í vaxtamálum og öðrum málum, hefur því víðtæk áhrif um allan heim, ekki einungis í Bandaríkjunum.