Vinstri græn vilja að stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir myndi næstu ríkisstjórn. Viðmælendur Kjarnans segja að flokkurinn telji ekki þörf á því að bæta fimmta, eða jafnvel sjötta, flokknum við þá ríkisstjórn. Nóg sé að vera með Vinstri græn, Samfylkingu, Framsóknarflokk og Pírata í henni.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, gaf það í skyn í gær að mögulega yrði mynduð ríkisstjórn með allt að sex flokkum. Þá snérust viðræður að mestu um að bæta annað hvort Viðreisn eða Flokki fólksins, eða jafnvel báðum, inn í ríkisstjórn með núverandi stjórnarandstöðuflokkum. Þá myndi meirihluti stjórnarinnar fara úr 32, sem er eins manns meirihluti, í 36 eða 40. Ekki hefur náðst sátt um þetta. Framsóknarflokkurinn er sagður vera fráhverfur því að fá Viðreisn í ríkisstjórnina og hinir flokkarnir þrír ekki sérstaklega hrifnir af því að fá Flokk fólksins þangað.
Heimildir Kjarnans herma að Framsóknarflokkurinn hafi lagt það til í dag að Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar væri tekinn inn í viðræður stjórnarandstöðuflokkanna um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Sú hugmynd hlaut ekki mikinn hljómgrunn hjá hinum flokkunum þremur.
Innan Samfylkingarinnar hefur verið vilji til að fá Viðreisn inn í fimm flokka stjórn og Píratar hafa sagt það opinberlega að þeim finnist eins manns meirihluti „tæpur.“
Flokkarnir sammála um áherslur
Líkt og Kjarninn hefur áður greint frá þá eru stjórnarandstöðuflokkarnir flestir sammála um breiðu málefnalínurnar í mögulegu samstarfi. Þ.e. aukin fjárútlát í heilbrigðis- og menntamál og að ráðast í mjög öfluga sókn í fjárfestingum í innviðum. Þá leggur Framsókn mikla áherslu á endurskipulagningu bankakerfisins og það að reynt verði að vinda ofan af sölu á hlutum í Arion banka til vogunarsjóða. Þá eru allir meðvitaðir um að komandi kjarasamningar verða mjög mikilvægir í baráttunni fyrir því að viðhalda því efnahagsástandi sem hér ríkir nú áfram.
Viðmælendur Kjarnans segja það skýrt frá bæði Framsóknarflokknum og Vinstri grænum að ýta Evrópusambandsmálum út af borðinu. Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði það beint út í Morgunútvarpi Rásar 2 í gærmorgun að flokkurinn muni einfaldlega ekki samþykkja slíkt. Samfylkingin, sem er sá flokkur í stjórnarandstöðunni sem hefur sterkustu Evrópustefnuna, hefur ekki gert málið að frágangssök og er talin sveigjanleg gagnvart því að setja það til hliðar náist saman um önnur atriði.