Samtök kvenna af erlendum uppruna harma að hlutfall kvenna á þinginu hafi minnkað. „Við hvetjum stjórnmálaflokka að gefa fleiri konum tækifæri, og að raða þeim í efsta sæti á listum þeirra t.d. í komandi sveitarstjórnarkosningum,“ segir í ályktun samtakanna um niðurstöður kosninganna sem þau sendu frá sér í gær.
Þær harma sérstaklega að enginn þingmaður sé af erlendum uppruna og skora á stjórnmálaflokkana að bjóða og hvetja innflytjendur að gefa sig fram því stjórnmálin eigi að endurspegla betur fjölbreytileika samfélagsins. „Ekkert um okkur án okkar,“ segja þær.
Barbara Kristvinsson, talsmaður samtakanna, segir að mikilvægt sé að raddir kvenna heyrist á þingi og ekki síður að raddir fólks af erlendum uppruna séu heyrilegar. Hún bendir á að bæði Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar og Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, hafi bæði dottið út af þingi í kosningunum um síðustu helgi.
Fjölbreytni af hinu góða
Barbara telur að Alþingi eigi að endurspegla þjóðfélagið eins og það er. „Við viljum horfa á alþingismenn og sjá fólk eins og okkur,“ segir hún og bætir við að best sé að hafa alls konar fólk með ýmiss konar reynslu. Fjölbreytni sé af hinu góð, sem og mismunandi lífssýn, menntun og bakgrunnur.
Með útgöngu þeirra Nichole og Pawel hefur orðið ákveðin afturför, að mati Barböru. „Íslendingar sem hafa ekki búið erlendis vita ekki hvernig er að aðlagast nýju samfélagi,“ segir hún og telur að gott sé fyrir þingmann að hafa þá reynslu til að geta skilið fólk af erlendum uppruna betur.
Fleiri af erlendum uppruna munu taka þátt í stjórnmálum
Hún telur jafnframt að í framtíðinni verði breyting á. Fleiri muni taka þátt í stjórnmálastarfi, sérstaklega þegar litið sé til þess að börn innflytjenda vaxa úr grasi og verða þátttakendur í samfélaginu og hugsanlega í stjórnmálum seinna meir. Þannig sé þróunin.
Eins og fram hefur komið á Kjarnanum er gert ráð fyrir því að aðfluttir íbúar verði 23.385 fleiri en brottfluttir á tímabilinu 2017-2021. Þetta kemur fram í mannfjöldaspá Hagstofunnar sem birt var 30. október síðastliðinn. Aðfluttir eru fyrst og fremst erlendir ríkisborgarar. Um síðustu áramót voru erlendir ríkisborgarar 30.380 hérlendis. Þeim mun því fjölga um 77 prósent á örfáum árum ef gengið er út frá því að allir aðfluttir umfram brottflutta séu erlendir ríkisborgarar.
Barbara bendir á að þörf sé á vinnuafli á Íslandi og á nýju fólki yfirhöfuð. Þingið verði þess vegna að endurspegla þjóðina og samfélagið í heild sinni.