Guðni Th. Jóhannesson, Forseti Íslands, hefur boðað Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, til fundar við sig á Bessastöðum í dag, fimmtudaginn 2. nóvember, kl. 16:00. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.
Við því má búast að Katrín fái þar umboð til að mynda nýja ríkisstjórn.
Að undanförnu hafa fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á síðasta þingi, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata, rætt um það hvort flötur sé á ríkisstjórnarsamstarfi milli flokkanna undir forystu Katrínar.
Fulltrúar flokkanna, þar á meðal formenn þeirra, hafa fundað í Alþingishúsinu í morgun. Þeir funduðu einnig langt fram eftir kvöldi í gær.
Flokkarnir sammála um áherslur
Líkt og Kjarninn hefur áður greint frá þá eru stjórnarandstöðuflokkarnir flestir sammála um breiðu málefnalínurnar í mögulegu samstarfi. Þ.e. aukin fjárútlát í heilbrigðis- og menntamál og að ráðast í mjög öfluga sókn í fjárfestingum í innviðum. Þá leggur Framsókn mikla áherslu á endurskipulagningu bankakerfisins og það að reynt verði að vinda ofan af sölu á hlutum í Arion banka til vogunarsjóða. Þá eru allir meðvitaðir um að komandi kjarasamningar verða mjög mikilvægir í baráttunni fyrir því að viðhalda því efnahagsástandi sem hér ríkir nú áfram.
Viðmælendur Kjarnans segja það skýrt frá bæði Framsóknarflokknum og Vinstri grænum að ýta Evrópusambandsmálum út af borðinu. Samfylkingin, sem er sá flokkur í stjórnarandstöðunni sem hefur sterkustu Evrópustefnuna, hefur ekki gert málið að frágangssök og er talin sveigjanleg gagnvart því að setja það til hliðar náist saman um önnur atriði.