Bakkavör hefur tilkynnt að fyrirtækið sé hætt við skráningu á markað í Bretlandi. Um þetta var tilkynnt í gær. Undirbúningur að skráningunni hafði staðið yfir frá því að á fyrri hluta árs og hafði HSBC bankinn unnið að henni ásamt Morgan Stanley. Barclays, Rabobank og Peel Hunt, ráðgjafafyrirtæki með höfuðstöðvar í London. Verðmiðinn á Bakkavör var talinn vera um tveir milljarðar Bandaríkjadala, eða um 210 milljarðar króna.
Ástæðan fyrir því að Bakkavör er hætt við skráningu er sögð vera óstöðugar markaðsástæður. Samkvæmt frétt Reuters um málið sögðu fulltrúar fyrirtækisins að þessi ákvörðun hafi verið tekin þrátt fyrir að nægjanlegur áhugi hafi verið hjá stofnanafjárfestum fyrir þátttöku í útboðinu. Stjórn Bakkavarar hafi hins vegar ákveðið að skráning myndi ekki þjóna hagsmunum fyrirtækisins né núverandi hluthafa þess.
Eigendur Bakkavarar í dag eru bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir ásamt fjárfestingasjóðnum Baupost Group. Bræðurnir stofnuðu Bakkavör á Íslandi árið 1986 en misstu yfirráð yfir því til skamms tíma eftir bankahrun.
Lýður steig niður úr starfi stjórnarformanns Bakkavarar í byrjun október. Sú ákvörðun var tekin í tengslum við fyrirhugaða skráningu á markað, sem nú hefur verið hætt við. Ágúst er forstjóri Bakkavarar.
Á meðal ríkustu manna í Bretlandi
Í sumar greindi Kjarninn frá því að Lýður og Ágúst væru á meðal ríkustu manna í Bretlandi samkvæmt árlegum lista sem birtur væri í The Sunday Times.
Í umsögn þess segir að fyrirtæki bræðranna, Bakkavör, selji örbygjumáltíðir og annars konar tilbúna rétti til matvöruverslanakeðja á borð Tesco og Sainsbury´s. Bræðurnir hafi misst tökin á fyrirtækinu í kjölfar bankahrunsins á Íslandi en samkomulag við bandaríska vogunarsjóðinn Baupost Group í fyrra hafi tryggt þeim yfirráð að nýju. Lýður og Ágúst eiga einnig hlut í Baupost Group, samkvæmt frásögn The Sunday Times.
Bakkavör Group gerir reyndar margt fleira en að búa til örbylgjumáltíðir. Það er risavaxið fyrirtæki sem framleiðir meira en fimm þúsund vörur í 42 verksmiðjum í Bretlandi, Bandaríkjunum og í Kína. Tekjur Bakkavarar Group í fyrra voru 1.735 milljónir punda, um 222,3 milljarðar króna á núvirði. Auk Tesco og Sainsbury´s selur fyrirtækið vörur til keðja í Bretlandi á borð við M&S, Waitrose, Copo, Aldi, Morrisons og ASDA. Í Bandaríkjum og Kína selur Bakkavör Group vörur til risvaxinna fyrirtækja á borð við KFC, Pizza Hut, McDonalds, Starbucks og Costa.
Hagnaður Bakkavör Group vegna ársins 2016, eftir skatta og fjármagnsgjöld, var tæplega 51 milljón pund, eða um sjö milljarðar króna. Rekstrarhagnaður var 91 milljón pund, eða 12,6 milljarðar króna. Fyrirtækið er að öllu leyti í eigu bræðranna Lýðs og Ágústar og Baupost Group. Bræðurnir eiga ráðandi hlut.