Eignir verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða námu 656,6 milljörðum króna í lok september og lækkuðu um 12,9 milljarða milli mánaða. Þetta sýna hagtölur Seðlabanka Íslands.
Eignir verðbréfasjóða námu 151,1 milljarði króna og lækkuðu þær um 802 milljónir milli mánaða, eignir fjárfestingarsjóða námu 333,7 milljörðum og lækkuðu um 10,2 milljarða.
Eignir fagfjárfestasjóða námu 171,8 milljarði og lækkuðu um tæplega tvo milljarða.
Lækkunina má aðallega rekja til peningamarkaðssjóða sem lækkuðu um 6 milljarða króna, skuldabréfasjóða sem lækkuðu um 3,6 milljarða og vogunarsjóða sem lækkuðu um 1,4 milljarða.
Í lok september var heildarfjöldi sjóða 180, það eru 44 verðbréfasjóðir, 59 fjárfestingarsjóðir og 77 fagfjárfestasjóðir.
Ein ástæða þess að fjármunir hafa verið að minnka í sjóðum innanlands er sú að lífeyrissjóðir hafa verið að taka eignastýringu úr sjóðunum og inn á borð til sín, ef svo má segja. Þá hefur fjárfesting í erlendum eignum einnig verið að aukast, en hreyfingarnar eru þó óverulegar enn sem komið er, þegar á heildina er litið.
Samkvæmt síðustu birtu tölum um eignir lífeyrissjóða, frá því í lok ágúst, þá námu þær 3.738 milljörðum króna. Innlendar eignir námu ríflega 2.800 milljörðum, en erlendar eignir 855 milljörðum og jukust þær um 32 milljarða milli mánaðanna, júlí og ágúst.
Eignirnar nema um þessar mundir ríflega 11 milljónum á hvern Íslending.