Vinna hefst í dag við að mynda ríkisstjórn með samstarfi Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Framsóknarflokksins. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur fengið stjórnarmyndunarumboðið, eftir fund með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.
Þingmeirihluti þessara flokka er naumur, en hann telur 32 þingmenn af 63, og því eins manns meirihluta. Vinstri græn eru með stærsta þingflokkinn, 11 þingmenn, Framsóknarflokkurinn með 8, og Samfylkingin 7 og Píratar sex.
Formenn og forystufólk flokkanna mun taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðunum, en Katrín hefur sagt að helst sé horft til þess að mynda stjórn um uppbyggingarverkefni, á sviði innviða, sem nauðsynlegt sé að fara í um þessar mundir, að mati allra flokkanna sem eiga aðild að viðræðunum. Er þar meðal annars átt við aukna innspýtingu í mennta- og heilbrigðismálum, auki fleiri verkefna, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Þrátt fyrir að þessar viðræður séu nú farnar í gang, hafa verið virk samtöl á milli flokkanna undanfarna daga, enda ekki augljóst að það takist að mynda ríkisstjórn fljótt, eins og reynslan frá því í fyrra sýnir glögglega. Þá tóku stjórnarmyndunarviðræður tvo mánuði, og erfiðlega gekk að koma saman stjórn.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur sagt að það sé ekki skilyrði af hálfu flokksins, að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræður við Evrópusambandið, og sagði í viðtali við RÚV í gær að nú yrði að horfa raunsætt á stöðuna og ná saman um allra brýnustu málin.