Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, mun skila forseta Íslands stjórnarmyndunarumboðinu á fundi þeirra sem hefst klukkan 17 á eftir.
Á mbl.is segir Katrín að forsetinn hafi gefið sér svigrúm til að fara yfir stöðuna, leita ráðrúms í sínu baklandi og heyra í öðru fólki. “ Ég mun hins vegar fara til hans á Bessastaði klukkan fimm og skila þessu umboði í ljósi þess að ég hef engan annan meirihluta í hendi.
Katrín sagði það ekki hafa komið sér á óvart að Framsóknarflokkurinn hafi slitið stjórnarmyndunarviðræðunum sem stóðu yfir við Vinstri græn, Samfylkingu og Pírata. Þeir hafi alla tíð hafa haft áhyggjur af þeim nauma meirihluta sem ríkisstjórnin hefði haft, en hún hefði haft 32 af 63 þingmönnum. „Það kemur ekkert mér á óvart lengur. Við vissum öll að þetta væri ekki auðveld staða eftir kosningar. Það er bara þannig sem maður nálgast þetta.“
Flestir viðmælendur Kjarnans búast við því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fái næstur stjórnarmyndunarumboð.
Samfylkingin vildi allan tímann styrkja samstarfið með Viðreisn
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tjáði sig um stjórnarslitin í stöðuuppfærslu á Facebook í dag. Þar segir hann að niðurstaðan hafi verið vonbrigði. „iðræðurnar voru góðar og allir flokkar lögðu sig fram um að ná saman um þau brýnu verkefni sem bíða; efla heilbrigðiskerfið, sækja fram á menntasviðinu, byggja upp innviði og skapa hér réttlátara samfélag. Við vorum farin að sjá til lands í því verkefni. Allan tímann vildi Samfylkingin styrkja slíkt samstarf með Viðreisn. Því höfnuðu Framsókn og þess vegna er það óskiljanlegt að hún noti tæpan meirihluta sem rök fyrir slitum.“