Miklar væntingar voru um skjótan árangur og fljótfærnislegar ákvarðanir voru teknar varðandi barkaígræðslu ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarini, sem gerðar voru á Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð, meðal annars á sjúklingi frá Íslandi. Öryggi sjúklings var vikið til hliðar.
Þetta kom fram í kynningu, sem haldin var síðdegis í Norræna húsinu, á nýrri skýrslu rannsóknarnefndar sem forseti Landspítala og rektor Háskóla Íslands skipuðu í fyrra til að rannsaka plastbarkamálið. Þrír óháðir utanaðkomandi sérfræðingar voru fengnir til að rannsaka aðkomu Háskólans, Landspítala og starfsmanna þeirra að plastbarkamálinu. Nefndin átti líka að meta hvort ákvarðanir íslensku læknanna á Landspítala sem komu að málinu hafi verið í samræmi við lög, reglur og verkferla.
Í niðurstöðum skýrslunnar segir m.a. að ekkert í gögnum plastbarkamálsins bendi til þess að Tómas Guðbjartsson hafi mátt vera ljóst að hin mögulega plastbarkaaðgerð skorti öll nauðsynleg opinber leyfi og yrði því í andstöðu við sænsk lög og viðteknar siðareglur á þessu sviði.
Aðgæslusömum lækni hefði aftur á móti átt að vera ljóst, samkvæmt nefndarmönnum, af lestri bréfa sem Tómasi höfðu borist frá læknum á Karolinska háskólasjúkrahúsinu að verið var að ræða um óhefðbundna og óvenjulega aðgerð á barkanum.
Af þeim sökum telur nefndin að eðlileg viðbrögð hefðu verið í framhaldinu að óska frekari upplýsinga sérstaklega varðandi það sem var illskiljanlegt í bréfunum.
Páll Hreinsson, dómari við EFTA-dómstólinn, er formaður nefndarinnar. Hann kynnti niðurstöðurnar á fundi síðdegis í dag. Með honum í nefndinni sat María Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í geðlækningum við réttargeðdeildina í Dikemark í Noregi, en Georg Bjarnason, krabbameinslæknir og vísindamaður við Sunnybrook-stofnunina í Toronto í Kanada komst ekki á fundinn vegna anna.
Skýrslan er viðamikil og mun Kjarninn fjalla um niðurstöður nefndarinnar í ýtarlegu máli næstu daga.