Stjórnarmyndunarviðræðum fjögurra flokka hefur verið slitið. Flokkarnir fjórir eru Vinstri græn, Samfylking, Framsóknarflokkur og Píratar.
Heimildarmenn Kjarnans segja að Framsóknarflokkurinn hafi slitið viðræðunum vegna þess að hann teldi meirihluta flokkanna vera of tæpan, en saman hafa þeir 32 af 63 þingmönnum. Sú ákvörðun var tekin í morgun.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa forsvarsmenn Framsóknarflokksins hins vegar ekki viljað taka Viðreisn inn í stjórnarsamstarfið til að tryggja stærri meirihluta.
Áhyggjur Framsóknarmanna beindust fyrst og síðast að Pírötum, sem þeir töldu að hefðu gefið of mikið eftir í stjórnarmyndunarviðræðum og að það myndi skapa vanda gagnvart baklandi þeirra þegar liði á kjörtímabilið.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna sem var með stjórnarmyndunarumboðið frá forseta Íslands, segir við RÚV að þessi niðurstaða hafi verið mikil vonbrigði. Hún mun ekki skila stjórnarmyndunarumboðinu strax heldur halda áfram að líta í kringum sig.