Mikil samskipti eru nú á milli flokksmanna flokkanna átta á Alþingi og ekki augljóst í hvaða farveg stjórnarmyndunarviðræðurnar fara. Eftir að slitnaði upp úr viðræðum milli stjórnarandstöðuflokkanna Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata - einkum vegna andstöðu Framsóknarflokks við að mynda stjórn sem hefði aðeins eins manns meirihluta, 32 þingmenn af 63.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi hvatt Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, til þess að hafa samband við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og kann hug hans til stjórnarmyndunar.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa töluverð samskipti átt sér stað á milli fólks í flokkunum undanfarinn sólarhring, en innan Framsóknarflokksins er nokkuð víðtækur stuðningur við myndun stjórnar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna. Þær áherslur mátti greina í máli Sigurðar Inga í Kastljósi í gærkvöldi.
Sá meirihluti hefði sterka stöðu í þinginu, eða 35 þingmenn. Auk þess væri stjórnarandstaðan, með 28 þingmenn, með „dreifða krafta“, eins og einn viðmælandi komst að orði, þar sem 28 þingmenn kæmu úr fimm flokkum; Miðflokki, Flokki fólksins, Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn. Þetta gæti skapað meiri stjórnfestu fyrir þá flokka sem væru við völd, þó erfitt sé að fullyrða um það.
Fleiri möguleikar eru þó á borðinu, og sagði Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor, í viðtali við RÚV í gærkvöldi, að það væri „mannlegt“ í þessum aðstæðum, að formenn flokkanna reyndu að koma saman stjórn þar sem áherslur þess sem vildi vera við stýrið yrðu settar á oddinn.
Það mun skýrast í dag og á næstu dögum, í hvaða farveg stjórnarmyndunarviðræður munu fara.