Bandaríkin verða eina aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sem verða utan við Parísarsamkomulagið um að draga úr mengun, eftir að stjórnvöld í Sýrlandi ákváðu að samþykkja það fyrir sitt leyti.
Stjórnvöld í Sýrlandi kynntu afstöðuna á fundi í Bonn í gær.
Parísarsamkomulagið var samþykkt árið 2015 en með því ákváðu aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að standa saman að aðgerðum til að sporna við hlýnun jarðar og draga mengun. Markmið samkomulagsins hafa verið lögleidd í aðildarríkjunum, og eru ríkin þegar farin að vinna í samræmi við þau.
Donald J. Trump, Bandaríkjaforseti, ákvað að draga Bandaríkin út úr samkomulaginu þar sem hann taldi það fara gegn bandarískum hagsmunum.
Þessu var mótmælt víða í Bandaríkjunum, og tóku meðal annars 50 stærstu borgir Bandaríkjanna sjálfstæða ákvörðun um að halda áfram að vinna eftir Parísarsamkomulaginu og mörg ríkja Bandaríkjanna sömuleiðis.
Þetta hafa stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna raunar einnig gert.
Sýrland og Níkaragva voru einu ríkin sem ekki skrifuðu undir 2015, en á ólíkum forsendum þó. Stjórnvöld í Níkaragva töldu ekki nógu langt gengið, á meðan stjórnarfarið í Sýrlandi var svo til i molum, þegar fundurinn fór fram, vegna borgarastyrjaldar.