Átt hafa sér stað þreifingar um stöðuna í stjórnmálunum og mögulegar stjórnarmyndunarviðræður milli Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.
Hafa þau öll rædd saman í síma um stöðu mála, og hafa öll áhuga á því að leiða ríkisstjórn ef það kemur til þess að flokkarnir hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, og er þar einnig vísað til þess að Sigurður Ingi og Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, styðji Katrínu sem forsætisráðherra ef það næst samstaða um málefnastöðu til að vinna eftir.
Eins og kunnugt er sigldu stjórnarmyndunarviðræður stjórnarandstöðuflokkanna, Vinstri grænna, Pírata, Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar í strand, og var það andstaða Framsóknar sem mestu réði í þeim efnum. Innan flokksins var hræðsla um að aðeins eins manns meirihluti væri af tæpur, í samstarfi fjögurra flokka.
Milli annarra flokka hafa einnig verið þreifingar og ljóst er að ýmislegt getur gerst, enda möguleikar á stjórnarmyndun margir.
Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hefði 35 þingmenn á móti 28 þingmönnum stjórnarandstöðuflokka.