Einstaklingar sem eiga hreina eign sem hleypur á milljörðum króna kanna nú hvaða leiðir standi þeim til boða við að flytja fjármagn sitt út landi til að forðast mögulegan auðlegðarskatt. Fólk úr þessum hópi hefur þegar fundað með ráðgjöfum vegna málsins. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.
Þar segir að ástæðan sé ótti við hugmyndir um „hóflegan auðlegðarskatt“ upp á 1,5 prósent, líkt og Vinstri græn, sem eru líkleg til að setjast í ríkisstjórn, töluðu fyrir í aðdraganda kosninga. Eigendur mikilla fjármuna vilja margir hverjir alls ekki þurfa að greiða slíkan skatt.
Í Viðskiptablaðinu segir að eina leiðin til þess að komast undan skattinum, yrði hann lagður á, væri að flytja lögheimili, skattalega heimilisfesti og mögulega allar eignir af landi brott. „Þeir sem eru ef til vill í erfiðustu stöðunni í þessu tilliti eru að sögn viðmælenda Viðskiptablaðsins þeir sem eiga umtalsverðar eignir en standa til dæmis í rekstri hér á landi og geta ekki með góðu móti skorið á öll tengsl við heimalandið og farið af landi brott.“
Þótt að fólk flytji heimilsfesti og eignir sínar af landi brott þá hefur embætti ríkisskattstjóra samt sem áður úrskurðarvald um það hvort þessum flutningi fylgi raunverulegur flutningur á heimili. Ef tilgangurinn með flutningnum er einungis sá að komast hjá greiðslu auðlegðarskatts en hluti fjölskyldu viðkomandi býr áfram á Íslandi og nýtir sér þjónustu þá getur embættið úrskurðað að viðkomandi einstaklingur búi enn á Íslandi.
Eitt prósent ríkustu tók til sín helming fjármagnstekna
Það er ekki sérlega stór hópur Íslendinga sem á miklar fjármunaeignir. Kjarninn greindi frá því fyrr í þessari viku að alls hafi Íslendingar þénað 117 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2016. Það er umtalsvert meira en árið áður, þegar heildarfjármagnstekjur Íslendinga voru 95,3 milljarðar króna.
Þessi staða þýðir að hin 99 prósent íslenskra skattgreiðenda skipti á milli sín 53 prósent fjármagnstekna sem urðu til á árinu 2016.
Helmingur eigna sem varð til fór til þeirra efnamestu
Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu 12. október síðastliðinn að þær rúmlega 20 þúsund fjölskyldur sem tilheyra þeim tíu prósentum þjóðarinnar sem eiga mest eigið fé – eignir þegar skuldir hafa verið dregnar frá – hafi átt 2.062 milljarða króna í hreinni eign um síðustu áramót. Alls á þessi hópur 62 prósent af öllu eigin fé í landinu. Eigið fé hans jókst um 185 milljarða króna á síðasta ári. Eigið fé hinna 90 prósent landsmanna jókst á sama tíma um 209 milljarða króna.
Það þýðir að tæplega helmingur þeirrar hreinu eignar sem varð til á síðasta ári fór til tíu prósent efnamestu framteljendanna. Þegar eigið fé 20 prósent efnamestu fjölskyldna þjóðarinnar er skoðað kemur í ljós að sá hópur á 85 prósent af öllu eigið fé í landinu. Sá helmingur þjóðarinnar sem á minnst er samanlagt með neikvætt eigið fé upp á 175,3 milljarða króna. Þetta kom fram í tölum um eiginfjárstöðu Íslendinga í lok árs 2016 sem birtar voru í byrjun október.
Þessar tölur eru þó vanmetnar þar sem að verðbréfaeign er metin á nafnvirði og þessi hópur á nánast öll verðbréfin. Auk þess vantar inn eignir sem faldar hafa verið í skattaskjólum sem opinberar skýrslur segja að hlaupi á tugum milljarða.