Fjöldi þeirra íbúa á Íslandi sem skráðir eru utan trú- og lífsskoðunarfélaga hefur rúmlega tvöfaldast frá því í byrjun árs 2010. Þá voru þeir sem voru skráðir utan slíkra félaga 10.336 talsins. Um síðustu áramót var sú tala komin upp í 20.500 og á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 bættust 1.021 manns við sem stóðu utan trú- og lífskoðunarfélaga. Heildarfjöldi þeirra í dag er því orðinn 21.521. Alls eru 111.042 íbúar utan þjóðkirkjunnar, eða 32 prósent allra landsmanna.
Þetta má sjá úr tölum Hagstofu Íslands og Þjóðskrár um breytingar á trú- og lífskoðunarfélagsaðild.
Fækkun frá 2009
Umræddar tölur taka til allra skráðra einstaklinga hvort sem þeir eru með búsetu á Íslandi eða erlendis. Erlendir ríkisborgarar sem skrá sig inn í kerfið hérlendis flokkast sem ótilgreindir, en ekki sérstaklega skráðir í trú- eða lífskoðunarfélög eða utan þeirra.
Á sama tíma og fjöldi þeirra sem kjósa að standa utan trú- og lífsskoðunarfélaga eykst ár frá ári þá fækkar sífellt þeim sem skráðir eru í þjóðkirkjuna. Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í hana. Sex árum síðar var hlutfallið komið undir 90 prósent en fjöldi einstaklinga sem voru í þjóðkirkjunni hélt samt sem áður áfram að vaxa fram til ársins 2009. Þá náði fjöldi þeirra sem í hana eru skráðir hámarki, en þá voru 253.069 manns í Þjóðkirkjunni. Það sama ár fór hins vegar hlutfall þjóðarinnar sem fylgdi ríkistrúnni í fyrsta sinn undir 80 prósent.
Þeim sem standa utan þjóðkirkju fjölgað um 80 þúsund
Frá árinu 2009 hefur fjöldi þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjunni dregist saman á hverju einasta ári. Um síðustu áramót voru þeir 236.481 talsins, sem þýddi að undir 70 prósent þjóðarinnar væri í kirkjunni.
Það sem af er árinu 2017 hafa 1.261 gengið úr þjóðkirkjunni en 488 verið skráðir í hana. Þeim sem í kirkjunni eru hefur því fækkað um 773 á fyrstu níu mánuðum ársins í ár, og eru skráðir meðlimir því 235.708 talsins. Í lok september bjuggu 346.750 manns á Íslandi. Það þýðir því að 111.042 landsmenn standi utan þjóðkirkjunnar, eða 32 prósent þeirra. Um síðustu aldarmót var fjöldi þeirra sem stóðu utan þjóðkirkjunnar 30.700. Þeim hefur því fjölgað um 80.342 síðan þá.