Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefur skrifað undir opið bréf þar sem helstu leiðtogar heimsins eru hvattir til að útrýma skattaparadísum og að þeir sem hafi nýtt sér þær verði látnir taka ábyrgð á gjörðum sínum.
Bréfið er einnig stílað á forseta Argentínu, Mauricio Macri, en í því segir að átta ríkustu einstaklingar heimsins eigi auðæfi á við helming mannkyns.
„Gjáin stækkar, þökk sé meðal annars skuggsælum skattaparadísum sem láta milljarða hverfa til aflandseyja úr hagkerfi okkar. Einmitt núna verða ríkir ríkari og þau okkar sem sitja eftir borga,“ segir í bréfinu.
Í bréfinu kemur einnig fram að fyrir átta árum hafi G20 fallist á að binda endi á slíka starfsemi. Nú sé tími til kominn að standa við loforðið.
Enn fremur segir að enginn ætti að komast upp með að sleppa því að sinna skyldum sínum og borga skatta. Það sé á ábyrgð leiðtoganna að koma því fyrir að svo sé. Sem borgarar í samfélagi þjóða krefjist þau aðgerða.
Eitt mesta óréttlæti nútímans
Brown segist persónulega ætla að afhenda forseta Argentínu bréfið. „Sem forsætisráðherra Bretlands og aðili í G20 hópnum reyndi ég fyrir átta árum að binda enda á óréttlæti skattaparadísa um allan heim. En eins og Paradísarskjölin sýna þá eru milljarðar millifærðir til útlanda á skuggsælustu staði hins hnattræna hagkerfis til að sleppa við það að greiða skatta.
Þetta er eitt mesta óréttlæti dagsins í dag; að leyfa þeim ríku að standa á hliðarlínunni á meðan við hin þurfum að greiða fyrir heilbrigðiskerfi og menntun og vernda hina varnarlausu í samfélaginu.
En núna býðst okkur tækifæri til að stöðva óréttlætið í gegnum alþjóðlegan samning sem bannar skattaparadísir og að leggja refsingu og fangelsisdóma á þá sem skjóta undan skatti. Og leiðtogar stærstu efnahagssvæða heimsins í G20 hópnum geta látið það gerast,“ segir hann og hvetur fólk til að skrifa undir bréfið.
Hann muni biðla til forsetans og annarra meðlima G20 hópsins að ljúka því verki sem hafið var árið 2009.