Alls fóru 90 prósent þeirra vaxtabóta sem greiddar voru út í fyrra til efnameiri helmings þjóðarinnar. Alls voru 4,6 milljarðar króna greiddir út í vaxtabætur á því ári og því fór um 4,1 milljarður króna af því fé til efnameiri hluta þjóðarinnar. Þetta kemur fram nýrri úttekt Íbúðalánasjóðs.
Þar kemur einnig fram að 70 prósent vaxtabóta fari til fólks sem sé eldri en 36 ára. Því eru vaxtabætur ekki að hjálpa fyrstu kaupendum að koma þaki yfir höfuðið og nýtast síst efnaminnstu einstaklingunum á húsnæðismarkaði.
Í fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði segir að úttektin sýni að ýmsir neikvæðir hvatar séu innbyggðir í vaxtabótakerfið. Þá þurfi að bæta. „Til dæmis getur það í sumum tilfellum haft neikvæð nettóáhrif að greiða inn á húsnæðislán. Þó að lækkun höfuðstóls leiði vissulega til lægri vaxtagreiðslna þá dugir það ekki alltaf upp á móti skerðingum sem fólk verður um leið fyrir á fjárhæð vaxtabóta.“
Hærra húsnæðisverð étur upp vaxtabætur en eykur skattbyrði
Kjarninn greindi frá því í ágúst að kostnaður ríkissjóðs vegna greiðslu vaxtabóta hafi lækkað um 16,8 prósent á síðasta ári. Alls fengu 26.107 þiggjendur vaxtabætur á síðasta ári, eða 12,1 prósent færri en árið áður. Vaxtabætur hafa samtals lækkað um 7,7 milljarða króna síðan árið 2010 og þeim fjölskyldum sem fá þær hefur fækkað um rúmlega 30 þúsund á saman tíma.
Á sama tíma og sífellt færri fá vaxtabætur vegna íbúðarhúsnæðis þá hafa fasteignagjöld, sem sveitarfélög leggja á, hækkað um 50 prósent vegna gríðarlegra hækkana á húsnæðisverði. Samandregið hafa því bótagreiðslur til húsnæðiseigenda hríðlækkað og skattar á húsnæðiseigendur hækkað umtalsvert.
Frá því í desember 2010 hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu, á öllu húsnæði, hækkað um 94 prósent. Hækkunin hefur verið drifin áfram af skorti á framboði, sem hefur verið miklu minna en eftirspurn. Samhliða hafa efnahagsaðstæður batnað og kaupmáttur aukist og geta íbúa til að kaupa sér húsnæði þar af leiðandi meiri.