Stjórnvöld í Kína hafa ákveðið að rýmka heimildir fyrir erlend fjármálafyrirtæki og eignastýringarfyrirtæki til að starfa í Kína og munu þau geta átt allt að 51 prósent hlut í kínverskum fyrirtækjum sem sinna þessari þjónustu.
Um stórt og mikið skref er að ræða í þá átt að markaðsvæða kínverskt fjármálakerfi og markaðinn í heild, en kínverska ríkið heldur um flesta þræða í kínverska hagkerfinu og hefur takmarkað mikið umsvif erlendra fyrirtækja í landinu.
Tilkynningin um þessa rýmkun virðist vera að koma mörgum á markaði á óvart, en samkvæmt umfjöllun Bloomberg er þetta álitið vera stórt skref í að styrkja viðskiptasamband Bandaríkjanna og Kína, þar sem bandarísk stórfyrirtæki, ekki síst bankar á Wall Street, hafa kvartað sáran undan því að geta ekki þjónustað viðskipti nema með takmörkuðu hætti, innan Kína.
Óhætt er að segja að fjármálakerfið í Kína sé stórt og fyrirferðamikið, en það er metið á um 40 þúsund milljarða Bandaríkjadala.
Nákvæmar útfærslur á því hvernig staðið verður að rýmkun heimildanna hefur ekki komið fram ennþá, en viðskiptaráðuneyti Kína hefur þegar gefið út að leiðbeiningar um þessi mál verði birtar innan skamms.