Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir í pistli á vef spítalans, þar sem plastbarkamálið er til umfjöllunar, að aðalatriði í málinu séu afdrif sjúklingsins. Mikilvægast af öllu sé að læra af málinu. „Að öllu þessu sögðu verður að draga fram það sem mestu máli skiptir. Það var ekki þáttur Paolo Macchiarini eða Karolinska, hvað þá hlutur Landspítala, HÍ eða íslenskra meðferðaraðila. Það mikilvægasta eru örlög Andemariam Taeklesebet Beyne. Ungur fjölskyldufaðir og námsmaður, sjúklingur okkar og skjólstæðingur Landspítala, tók í örvæntingu sinni þátt í ólögmætri tilraun með skelfilegum afleiðingum. Vissulega fékk hann góða þjónustu hjá okkur fyrir og eftir hina afdrifaríku skurðaðgerð í Svíþjóð. Engu að síður brást svo margt sem ekki mátti bregðast og af virðingu við Andemariam og fjölskyldu hans ber okkur öllum skylda til að læra af þessu hörmulega máli. Það munum við gera,“ segir í Páll í pistli sínum.
Tómas Guðbjartsson, prófessor og skurðlæknir, hefur verið sendur í leyfi frá störfum, meðan farið er yfir efnisatriði skýrslunnar frá rannsóknarnefndinni.
Hann hefur sjálfur sagt að hann hafi viljað gera allt sem hægt var að gera til að bjarga lífi sjúklingsins, og það hafi verið það sem dreif hann áfram í störfum í málinu. Hann hafi tekið ákvarðanir í góðri trú og lagt traust á Paolo Macchiarini, sem ekki reyndist traustsins verður.
Hann segir enn fremur að alvarlegasta ályktunin nefndarinnar, sem skipuð var til að fara yfir málið og þátt Landspítalans og Háskóla Íslands, sé að málið kunni að varða við mannréttindasáttmála Evrópu. „Alvarlegasta ályktun nefndarinnar hlýtur að vera sú að málið kunni að varða 2. grein mannréttindasáttmála Evrópu. Sú grein fjallar um rétt okkar allra til verndunar lífs. Landspítali er stofnun þar sem sjúklingurinn er í öndvegi. Við helgum okkur varðveislu lífs svo það er okkur öllum sem hér störfum gríðarlegt áfall að dragast inn í mál, með hvaða hætti sem það kann að hafa verið, sem hefur einhvern snertiflöt við ályktun um að sú helgi hafi verið rofin,“ segir Páll.
Í pistlinum segir Páll að þau mál sem varða vísindasiðanefnd verði tekin upp við stjórnvöld, hlutum málsins verði vísað til siðfræðinefndar Landspítala og að til skoðunar sé tillaga nefndarinnar um það með hvaða hætti sé unnt að koma ekkju sjúklings til aðstoðar vegna málsins.