Flokkur fólksins er opinn fyrir því að ræða stjórnarmyndun frá miðju til vinstri. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar.
Þar segir hann frá því að hann og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hafi átt gott samtal um brýn verkefni næstu ára, og birtir mynd af þeim saman. „Við eigum bæði rætur í jafnaðarhugsjóninni og rennur til rifja fátækt, misskipting og veik almannaþjónusta.
F væri opinn fyrir því að ræða stjórnarmyndun frá miðju til vinstri.
Þetta væri óvenjulegt en ég er sannfærður um að það er rétta svarið til að koma hér á félagslegum og pólitískum stöðugleika.
Saman hefðu VBSPCF 40 þingmenn en þeir væru 32 án B.
Eins og sagt er í skákinni; VG á leik!“
Nú standa yfir óformlegar viðræður milli Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um myndun ríkisstjórnar. Forsvarsmenn flokkanna virðast sammála um að þær gangi vel. Í dag munu þeir funda með þingflokkum sínum og baklandi til að gera grein fyrir stöðunni. Ef vel verður tekið í hana er talið líklegt að formlegar stjórnarmyndunarviðræður flokkanna þriggja hefjist í byrjun komandi viku.
Mikið er þó reynt að fá Katrínu Jakobsdóttur til að skipta um skoðun og halla sér í aðra átt. Á föstudagsmorgun birtu til að mynda forsvarsmenn Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata mynd af Loga Einarssyni með Pírötunum Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur og Helga Hrafni Gunnarssyni, og Viðreisnarfólkinu Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Þorsteini Víglundssyni, þar sem þau funduðu um helstu mál sem flokkarnir þrír gætu unnið saman að, annað hvort innan ríkisstjórnar eða í stjórnarandstöðu. Skilaboðin voru þau að þessir þrír flokkar væru tilbúnir til að taka þátt í annars konar stjórn með Katrínu Jakobsdóttur og Vinstri grænum, með eða án Framsóknarflokksins.
Ef Flokki fólksins er bætt við þann hóp þá er hann með 21 þingmann sem myndi þýða að ellefu þingmenn Vinstri grænna myndu duga til að mynda fimm flokka meirihlutastjórn. Í stjórnarandstöðu yrðu þá Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Við Inga áttum gott samtal um brýn verkefni næstu ára. Við eigum bæði rætur í jafnaðarhugsjóninni og rennur til rifja fá...
Posted by Logi Einarsson on Sunday, November 12, 2017