Arion banki telur að verðið sem bankinn fékk fyrir eignarhluti í Bakkavör hafi veri ásættanlegt, miðað við aðstæður á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram. Þá segir hann einnig, að það hafi komið til greina að skrá félagið á markað, og losa þannig um eignarhlutina, en um það hafi ekki verið samstaða meðal hlutahafa.
Þetta kemur fram í svari bankans við fyrirspurn Kjarnans. Bakkavör verður skráð á markað í London á fimmtudaginn, og er virði félagsins ríflega einn milljarður punda, eða sem nemur um 143 milljörðum króna.
Í byrjun árs í fyrra seldi Arion banki, ásamt íslenskum lífeyrissjóðum, eignarhluti sína í Bakkavör þar sem miðað var við verðmiða á félaginu upp á 319 milljónir punda, eða sem nemur um 43 milljörðum króna. Það er innan við þriðjungur af verðinu sem fæst fyrir félagið núna, ríflega einu og hálfu ári síðar. „Bankinn taldi það verð sem fékkst fyrir hlutinn í Bakkavör í janúar 2016 vel ásættanlegt. Salan var niðurstaða söluferlis sem var í umsjón breska bankans Barclays. Síðan eru liðin tæp tvö ár og hefur bæði afkoma félagsins og markaðsaðstæður batnað á þeim tíma sem liðinn er. Það kom vissulega til greina af hálfu Arion banka að skrá Bakkavör á markað á sínum tíma. Aðrir hluthafar voru ekki til í það á þeim tíma og því ekki hægt að ráðast í þá vegferð,“ segir í svari Arion banka.
Eigendur Bakkavarar, Ágúst og Lýður Guðmundssynir ásamt vogunarsjóðnum Baupost, munu fá greiddar 158 milljónir punda þegar félagið verður skráð á markað, jafnvirði 21 milljarðs króna.
Fjárfestum býðst um fjórðungshlutur í fyrirtækinu en Ágúst og Lýður eiga 59 prósent hlut í félaginu en Baupost Group 41 prósent. Sé mið tekið af þeim hlutföllum fara um 12,7 milljarðar í hlut Ágúst og Lýðs.
Skráningin markar tímamót í sögu Bakkavarar, en á þessu ári eru 31 ár frá því að Ágúst og Lýður stofnuðu félagið. Undanfarin ár hafa verið mikil rússíbanareið fyrir fyrirtækið og hluthafa þess, eins og rakið hefur verið í fréttaskýringum á vef Kjarnans.
Óhætt er að segja að Ágúst og Lýður, ásamt Baupost, hafi náð að gera sér mun meiri verðmæti úr hlutnum í Bakkavör en Arion banki og íslenskir lífeyrissjóðir gerðu eftir hrunið.
Þeir nýttu meðal annars fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands til að fá hagstætt gengi á fjármuni, sem síðan voru nýttir til þess, meðal annars, að kaupa hlutabréf í Bakkavör af íslenskum lífeyrissjóðum.
Þá teygir viðskiptaveldi þeirra til fjölda félaga í skattaskjólum, og komu fram upplýsingar um þau í Panamaskjölunum.
Í janúar 2016 var send tilkynning til fjölmiðla um að BG12 ehf., félag í eigu Arion banka, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóðs, fleiri minni lífeyrissjóða og fagfjárfesta hefði selt 46 prósent hlut sinn í Bakkavör til félags sem er í eigu bræðranna Ágústar og Lýðs og bandarískra fjárfestingasjóða í stýringu hjá Baupost Group L.L.C.
Kaupverðið nam 147 milljónum punda, um 20 milljörðum króna.
Sameinaði lífeyrissjóðurinn og dótturfélag Klakka seldu jafnframt sinn fimm prósent hlut í Bakkavör Group og má ætla að kaupverðið hafi verið um þrír milljarðar króna.
Kaupendur skuldbundu sig til að leggja fram kauptilboð í alla aðra útistandandi hluti í félaginu, rétt um ellefu prósent, á sömu kjörum, og gerðu þeir það að lokum.