Fundi þingflokks Vinstri grænna, þar sem rætt var um hvort það ætti að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokki, lauk í gærkvöldi án niðuirstöðu.
Búist er við því að lokaniðurstaða liggi fyrir í dag, en boðað hefur verið til framhaldsfundar þar sem lokaákvörðun verður tekin um í hvaða stefnu málið fer. Hefst sá fundurinn klukkan 13:00.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur talað fyrir því að flokkurinn einblíni á málefnin og láti reyna á hvort hann nái sínu fram.
Fyrir kosningar útilokaði flokkurinn ekki samstarf við neinn flokk, og á þeim grunni hefur Katrín tekið þátt í óformlegum viðræðum með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.
Ljóst er þó að forystusveit flokksins, þingflokkur, flokksráðs og helstu trúnaðarmenn, munu ráða miklu um það hvort skuli fara í formlegt stjórnarsamstarf milli flokkanna þriggja.
Innan Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er meiri vilji til að fara í viðræður með Vinstri grænum, og þá einkum og sér í lagi innan Framsóknarflokksins, enda hefur Sigurður Ingi Jóhannson, formaður flokksins, talað skýrt fyrir því að samstarf þessara þriggja flokka geti orðið farsælt.