Umhverfisstofnun hefur gefið úr starfsleyfi fyrir PCC BakkiSilicon hf. Fyrirtækið hyggst hefja framleiðslu á hrákísli í nýbyggðri verksmiðju á iðnaðarsvæðinu á Bakka í Norðurþingi. Þar á að framleiðla meira en 98,5 prósent hreinan kísill. Veitt er heimild til framleiðslu á allt að 66 þúsund tonnum á ári.
Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 8. nóvember 2033. Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Í frétt á vef Umhverfisstofnunar segir að ein umsögn hafi borist um starfsleyfi tillögu fyrirtækisins. Hún barst frá Landvernd. „Umhverfisstofnun ákvað að bera einn lið umsagnarinnar undir Skipulagsstofnun sem fjallaði um meinta annmarka á áliti hennar. Þar var einkum fjallað um sjónarmið samtakanna um að tilteknum atriðum hafi verið sleppt í mati á umhverfisáhrifum. Í meginatriðum var svar Skipulagsstofnunar þess efnis að umfjöllun hennar hafi farið rétt fram samkvæmt lögum. Þá var umsögnin frá Landvernd send til fyrirtækisins sem ákvað að svara henni sérstaklega fyrir sitt leyti.“