Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segist ætla að hætta að nota Facebook af heilsufarsástæðum. Brynjar hefur verið mjög áberandi á samfélagsmiðlinum á undanförnum árum þar sem hann hefur sett fram skoðanir á mönnum og málefnum. Ummæli hans þar og skoðanaskipti hafa oft á tíðum ratað í fréttir. Brynjar er með hámarksfjölda vina á Facebook og hefur náð meiri útbreiðslu með stöðuuppfærslum sínum en flestir aðrir stjórnmálamenn á undanförnum árum.
Í stöðuuppfærslu sem Brynjar birti fyrir skemmstu segir hann að áður en hann hóf afskipti af stjórnmálum haustið 2012 hafi hann ekki verið á samskiptamiðlum og liðiði vel. „Mér var hins vegar tjáð að ekki þýddi að fara í stjórnmál án þess að vera á fésbókinni, hið minnsta. Fésbókin er kjörinn vettvangur til að koma áleiðis skoðunum sínum. Mér þykir vænt um alla 5000 vini mína og líka hina sem eru í mismiklu jafnvægi en hafa mikla þörf til að segja mér til syndanna.
Samskipti á Fésbókinni eru vandmeðfarin. Kímnigáfa og skopskyn fólks er mjög mismunandi og sumir bera lítið skynbragð á kaldhæðni og þekkja bara orðið úr orðabókum. Viðbrögðin geta því verið ansi harkaleg og jafnvel ógeðfelld. Einn góður vinur minn sagði að ég gæti lagað það að mestu með því að læra að nota alla þessa bros- og skeifukarla sem í boði eru.
Ég óttast að allir þessir samskiptamiðlar séu farnir að hafa alvarleg áhrif á geðheilsu þjóðarinnar. Sýnist að fólk sé að mestu hætt að tala saman og einu samskiptin eru þegar verið er að sýna hvort öðru eitthvað í símanum. Kannski ekki skrítið að geðheilbrigðimál sé mesta áskorun stjórnmálanna í nánustu framtíð.
Nú er svo komið að ég ætla, af heilsufarsástæðum, að kveðja Fésbókina ,að minnsta kosti í bili. Eiginkonan mun gleðjast og kannski láta sjá sig aftur á meðal fólks og margir samflokksmenn mínir munu draga úr notkun róandi lyfja ef það er ekki orðið of seint. Kannski mun hin magnaða pólitíska hreyfing Pírata ná áttum. Kraftaverkin gerast.
Ég mun örugglega sakna ykkar, kæru vinir en nú bíð ég bara eftir að einhver kenni mér að loka þessum fjanda.“
Áður en ég hóf afskipti af stjórnmálum haustið 2012 var ég ekki á samskiptamiðlum og leið bara fjandi vel. Mér var hins...
Posted by Brynjar Níelsson on Tuesday, November 14, 2017