Formlegar stjórnarmyndunarviðræður milli Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eru hafnar, og er búist við því að staðan verði orðin skýrari í lok vikunnar varðandi það hvort flokkarnir ná saman í samstarfi. Það er sá tímarammi sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, reiknar með að þurfi í viðræðurnar.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í Kastljósi í gærkvöldi að vissulega væri það þannig, að stefnur þessara flokka væru ólíkar, en það væru þó málefni sem hægt væri að ná saman um, eins og auknar áherslur í mennta- og heilbrigðismálum, og öðrum þáttum sem tengjast innviðafjárfestingum.
Sagði hún að viðræður flokkanna væru líklegar til að snúast um þessi atriði, en vissulega væru mörg stefnumál sem flokkarnir þyrftu að semja um og komast að niðurstöðu, þar sem langt væri á milli flokkanna.
Mikil andstaða er innan Vinstri grænna við stjórnarmyndunarviðræðurnar en tveir af ellefu þingmönnum, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, voru á móti því að fara í formlegar viðræður við flokkanna. Lét Rósa Björk meðal annars hafa eftir sér að Sjálfstæðisflokknum væri einfaldlega ekki treystandi.
Þá sendi ungliðahreyfing Vinstri grænna frá sér yfirlýsingu, þar sem flokkurinn var hvattur til að sýna ábyrgð í verki, og halda Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum utan ríkisstjórnar. Ekki væri hægt að mynda ríkisstjórn með spilltum flokkum sem hefðu sýnt að ekki gætu verið við völd.