Barátta yfirvalda í Kólumbíu, Bandaríkjunum og öðrum samstarfsríkjum, í hinu svonefnda stríði gegn fíkniefnum, hefur vægast sagt gengið illa. Þrátt fyrir að vitað sé nánast alveg upp á fermetra, hvar kókalauf eru ræktuð, þá hafa yfirvöld í Kólumbíu ekki náð að sporna gegn því að framleiðslan fari fram og úr laufunum unnið kókaín sem síðan er flutt til Bandaríkjanna, að stærstu leyti, og síðan einnig til Afríku og þaðan inn á markaði í Evrópu og Asíu.
Framleiðslusvæðin þekkt
Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í ársskýrslu INCS (International Narco Control Strategy) þá hefur landsvæði sem fer undir kókaínframleiðslu í Kólumbíu - sem er eins konar hjartavöðvi í hinu risavaxna kókaínhagkerfi heimsins - stækkað umtalsvert að undanförnu og framleiðsla aukist mikið.
Svæði undir kókaínframleiðslu stækkaði um 39 prósent árið 2014 og 42 prósent árið 2015. Það er mesta aukning sem orðið hefur í sögu mælinga á þessum hlutum í landinu. Sérstaklega hefur aukningin orðið mikil á þekktum kókalaufsræktunarsvæðum í Suðvesturhluta landsins.
Mikil aukning
Í umfjöllun Business Insider kemur fram, að yfirvöld í Kólumbíu telji að aukningin í útflutningi kókaíns sé gríðarlega mikil miðað við fyrri ár. Talið er að hún hafi verið 495 tonn árið 2015 en hafi aukist verulega í fyrra. Svo virðist sem eftirspurn eftir kókaíni í heiminum hafi farið hratt vaxandi, en það er helst árið 2007 sem er samanburðarhæft við það sem fram kemur í skýrslu INCS.
Í gegnum söguna hefur eftirspurn eftir kókaíni oft haldist í beinu samhengi við efnahagslega velsæld á helstu mörkuðum heimsins. Því meiri velsæld og hagvöxtur, því meiri eftirspurn eftir kókaíni. Sé mið tekið af þessum upplýsingum frá INCS þá er töluverð spenna í heimsbúskapnum um þessar mundir, og greinilegt að efnahagslegur uppgangur er það sem helst einkennir stærstu markaði. Hugsanlega má einnig lesa út úr þessu að nýjir markaðir séu að koma inn í sölunetið í svarta hagkerfinu, meðal annars í Asíu.
Enginn árangur
Þrátt fyrir hert landmæraeftirlit, samstarf yfirvalda í Bandaríkjunum með ríkjum Suður-Ameríku, og markvissari kortlagningu á framleiðslu og dreifileiðum fíkniefna, þá hefur fíknefnavandi í Bandaríkjunum sjaldan verið meiri en nú. Gífurlega hröð aukning í notkun læknadóps af ýmsum toga, og verksmiðjuframleiddra efna, hefur leitt til þess að þess að dauðsföllum vegna of stórs skammts af efnum hefur fjölgað hratt.
Í fyrra dóu 64 þúsund manns vegna of stórs skammts og hefur Bandaríkjaforseti, Donald Trump, lýst því yfir að stjórnvöld muni vinna náið með borgum og sveitarstjórnum að því að hjálpa fíklum og reyna að draga úr vandanum.
Sérstaklega hefur dauðsföllum vegna læknadóps fjölgað, og má þar sérstaklega nefna dauðdaga vegna notkunar á Fentanyl efninu, en á þremur árum hefur aukning dauðdaga vegna þess verið 540 prósent.