Stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafa gengið nokkuð hratt fyrir sig að undanförnu og er nú komin sátt um „breiðu línurnar“ eins og einn viðmælandi komst að orði.
Innan þess mengis má telja til sátt um að auka fjárframlög til heilbrigðis- og menntamála, auk sóknar í innviðafjárfestingum, svo sem í samgönguverkefni. Ekkert er enn byrjað að ræða um ráðherraskiptingu af alvöru, en fyrir liggur að ríkisstjórnin verður með Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, sem forsætisráðherra.
Í viðtali við mbl.is segir Katrín að ljóst sé að langt sé á milli flokkanna á ýmsum sviðum og samstarf flokkanna muni taka mið af því.
Í dag var fundað með aðilum vinnumarkaðarins, meðal annars til að glöggva sig á stöðu mála í kjaraviðræðum. Samningar hafa verið lausir hjá aðildarfélögum BHM frá því í haust en lítill gangur hefur verið í samningaviðræðum við ríkið. „Það liggur fyrir að eitt af stærstu verkefnum þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við er að ná einhverri sátt á vinnumarkaði. Við vildum hlýða á þeirra sjónarmið, bæði um það hvernig sé hægt að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og skapa félagslegan stöðugleika á Íslandi. Það er eitt af því sem verkalýðshreyfingin hefur verið að setja á oddinn,“ segir Katrín í viðtali við mbl.is.
Vinna við hinn eiginlega stjórnarsáttmála er unnin jafnóðum í viðræðum flokkanna, en gert er ráð fyrir að stjórnarmyndunarviðræður flokkanna klárist í þessari viku. Eins og mál standa nú er ólíklegt að upp úr slitni, þar sem sátt virðist vera um það hjá öllum flokkunum að slá verulega af ítrustu kröfum og vinna út frá sameiginlegum áherslumálum.