Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata segir að flokkur hennar hafi verið opinn fyrir því að skoða aðkomu Flokks fólksins að ríkisstjórnarmyndun. Eftir að hafa átt samskipti við þingmenn hans þá sýnist henni að það væri vel talandi við flokkinn. Það sem Píratar hafi sett helst fyrir sig voru útlendingamál.
Þetta kemur fram í sjónvarpsþætti Kjarnans sem sýndur er klukkan 21 á Hringbraut í kvöld. Þar eru Þórhildur Sunna og Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, viðmælendur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans. Umræðuefnið er verðandi ríkisstjórn, þær stjórnarmyndunarviðræður sem strönduðu í byrjun síðustu viku og kjörtímabilið fram undan.
Þórhildur Sunna segir að sér hafi stundum orðið um og ó við málflutning einstaklinga innan Flokks fólksins gagnvart útlendingum og fundist það erfiðasti hjallinn til að klífa gagnvart þeim. „En ef ég ber það saman við Sjálfstæðisflokkinn sem hefur haldið á dómsmálaráðuneytinu í 30 ár og rekið mjög harða stefnu gagnvart útlendingum, og á ekki í erfiðleikum með að tala niður til þeirra heldur og að nota það sem kallast hundaflautupólitík gegn útlendingum hérna, þótt sumir séu berorðari en aðrir eins og til dæmis Ásmundur Friðriksson og Óli Björn Kárason, sem hefur talað um að nota stálhnefann gegn útlendingum og hælisleitendum, þá finnst mér það ekki vera verra í samanburði.“
Hægt er að sjá brot úr viðtalinu við Þórhildi Sunnu í spilaranum hér að ofan.