Stjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN hafa ákveðið að leggja stöðina niður og verður útsendingum hennar hætt í kvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á Facebook síðu miðilsins.
Þar segir að ÍNN hafi glímt við mikinn rekstrar- og skuldavanda um árabil. „Tækjabúnaður stöðvarinnar þarfnast endurnýjunar og ljóst er að stöðin verður ekki rekin áfram nema nýtt fjármagn komi til. Hlutafé í ÍNN var meðal þess sem Frjáls fjölmiðlun keypti af Pressunni í haust. Niðurstaðan nú er sameiginleg milli stjórnar Pressunnar og eiganda Frjálsrar fjölmiðlunar, en bæði félögin hafa lagt ÍNN til fjármagn undanfarin misseri.“
Í október 2016 var greint frá því að Pressusamstæðan hafi tekið yfir ÍNN. Þegar leið á árið 2017 var ljóst að Pressan glímdi við mikinn fjárhagsvanda og í september síðastliðnum var greint frá því að Frjáls fjölmiðlun ehf., félag sem er stýrt af Sigurði G. Guðjónssyni lögmanni, hefði keypt fjölmiðlanna Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN.
Miðlarnir voru keyptir af félaginu Pressunni en og hluti skulda hennar voru skildar eftir þar. Fjármunirnir sem greiddir voru fyrir miðlana voru m.a. notaðir til að greiða upp opinber gjöld sem voru í vanskilum við tollstjóra. Sú skuld hljóp á hundruð milljónum króna. Tollstjórinn í Reykjavík hafði lagt fram gjaldþrotabeiðni á hendur Pressunni fyrir héraðsdómi vegna þess. Sú beiðni var afturkölluð eftir að Sigurður greiddi þá skuld sem var forsenda hennar.