Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, hvetur flokksmenn Vinstri grænna til að yfirgefa ekki flokkinn þrátt fyrir að nú séu í ganga formlegar stjórnarmyndunarviðræður milli Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Þetta kemur fram í skrifum Svandísar inn á Facebook síðu flokksmanna. Það sem hvatti hana til skrifa var úrsögn Drífu Snædal úr Vinstri grænum, en hún hefur lengi verið félagi í flokknum, varaþingmaður og gegnir auk þess stöðu framkvæmdastjóra hjá Starfsgreinasambandi Íslands.
Drífa sagði í pistli að stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum væri „eins og að éta skít“. Það væri ekki hægt að sætta sig við það.
Svandís biður fólk um að fara ekki. „Þið hljótið að sjá að við Katrín erum ekki að sinna þessum verkefnum sólarhringum saman okkur til skemmtunar, en niðurstaðan gæti orðið til þess að gleðja það fólk sem við eigum samleið með. - Sjáum hvað setur,“ segir Svandís.
Eins og greint hefur verið frá á vef Kjarnans, þá hafa stjórnarmyndunarviðræður flokkanna þriggja gengið nokkuð hratt fyrir sigu síðustu daga, og hefa flokkarnir einkum rætt um mál sem hægt væri að ná málefnalegri samstöðu um, en lagt önnur mál til hliðar þar sem ágreiningurinn er mestur.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og forsætisráðherraefni í stjórninni, hefur talað fyrir því að flokkarnir einblíni á að ná sátt um aukna sókn í styrkingu innviða samfélagsins, einkum á sviði mennta- og heilbrigðismála, en einnig á fleiri sviðum sem telja má til innviða samfélagsins, svo sem á sviði samgöngu- og umhverfismála.
Svandís segir flokksmönnum að gefa forystu Vinstri grænna tíma til að vinna úr málunum. „Gefið okkur, kæru vinur og félagar, nokkra daga. Við erum að fara yfir málin sem við berum öll fyrir brjósti. Ég er að tala um þessi mál en líka þau mál sem leiddu til þess að síðustu tvær ríkisstjórnir sögðu af sér og gáfust upp. Kvenfrelsismál, umhverfismál, öll málin okkar. Ekki fara,“ segir Svandís meðal annars í pistli sínum.