Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og starfandi félags- og jafnréttismálaráðherra, segir að það sem sameini Vinstri græn, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, sem nú reyna að mynda ríkisstjórn, sé sterkt þjóðernisíhald. Flokkarnir eigi auðveld með að sameinast um það sem þeir vilja ekki gera. Engin þeirra vilji gera breytingar í sjávarútvegi og landbúnaði né kanna upptöku annars gjaldmiðils þrátt fyrir að krónan kosti heimili og fyrirtæki í landinu að minnsta kosti 200 milljarða króna á ári í viðbótarkostnað. „Flokkarnir geta auðveldlega slegið skjaldborg um óbreytt ástand. Að framtíðinni verði slegið á frest um sinn.“Þetta kemur fram í grein sem Þorsteinn skrifar í Fréttablaðið í dag.
Þar segir Þorsteinn enn fremur að sú ríkisstjórn sem sé í burðarliðnum sé skýrt merki um að átakalínur íslenskra stjórnmála séu að breytast. Að samstarfsflokkanna lengst til vinstri og hægri í hinu pólitíska litrófi marki endalok hefðbundinna stjórnmálaátaka og að þau færist yfir á aðrar víddir en áður.„Að átökin muni ekki snúast um hefðbundna hægri og vinstri stefnu heldur fremur um stöðu Íslands í alþjóðlegu samstarfi og viljann til að ráðast í nauðsynlegar umbætur á íslensku samfélagi til að tryggja að við verðum þátttakendur en ekki áhorfendur í þeim miklu breytingum og tækifærum sem fylgja munu fjórðu iðnbyltingunni.
Ágreiningur um fjármögnun
Þorsteinn telur að það hversu vel gangi í viðræðunum megi rekja til þriggja þátta. „Í fyrsta lagi snýst stjórnarmyndunin fyrst og fremst um forgangsröðun ríkis- útgjalda. Í öðru lagi hafa öll helstu ágreiningsefni verið lögð til hliðar. Í þriðja lagi er rétt að hafa í huga að þó svo langt sé á milli VG og Sjálfstæðisflokks á hinum klassíska hægri/vinstri ás stjórnmálanna, þá er mun styttra á milli flokkanna þegar horft er til forsjárhyggju eða frjálslyndis annars vegar og alþjóðahyggju eða einangrunarhyggju hins vegar.“
Það eigi ekki að koma á óvart að flokkarnir þrír nái saman um forgangsröðun ríkisútgjalda. Allir flokkar sem buðu fram til síðustu þingkosninga hafi lagt megináherslu á heilbrigðis-, mennta- og innviðamál. Ágreiningurinn snúist fyrst og fremst um hvernig eigi að fjármagna útgjöldin. „Þó helstu ágreiningsefni séu lögð til hliðar við upphaf stjórnarsamstarfs er líklegt að þau brjótist fram síðar. Viðhorf flokkanna til umhverfismála og atvinnuuppbyggingar hafa t.d. verið mjög ólík. Afstaða til innflytjendamála sömuleiðis. Ný rammaáætlun verður eitt af fyrstu viðfangsefnum nýrrar ríkisstjórnar og þar hafa VG og Sjálfstæðisflokkur lengi eldað grátt silfur saman. Að sama skapi einangraðist Sjálfstæðisflokkurinn í afstöðu sinni til breytinga á útlendingalögum við lok síðasta þings. Það þurfa margir þingmenn að kyngja sannfæringu sinni ef ekki má ræða ágreiningsefnin.“