„Eftir allar hástemmdu yfirlýsingarnar um hið óstjórntæka íhald hefur Vg nú ákveðið að veita Sjálfstæðisflokknum uppreist æru. Af fréttum að dæma virðist Vg auk þess ætla að leyfa formanni Sjálfstæðisflokksins að verða ráðherra í ríkisstjórninni þrátt fyrir fyrri efasemdir þar um. Þó virðist alls ekki víst að hann fái að halda utan um efnahagsmálin í fjármálaráðuneytinu,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins í grein á síðu flokksins í dag.
Hann segir að margt hafi verið sérkennilegt við yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræður. Skýringar hafi fengist á sumu en annað verði sífellt undarlegra. Allt sé þetta áhugavert fyrir áhugamenn um stjórnmál.
Stjórnarmyndunarviðræður standa nú yfir en formenn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna funduðu fram á kvöld í gær um myndun ríkisstjórnar. Áður höfðu formennirnir fundað með forystufólki vinnumarkaðarins, ASÍ og Samtökum atvinnulífsins til þess að fá yfirsýn yfir þá stöðu sem við blasir í kjaraviðræðum. Þetta kemur fram í frétt RÚV í morgun.
„Komið hefur í ljós að viðræður vinstriflokkanna voru ekki bara leiksýning af hálfu Framsóknarflokksins heldur Vg líka.
Það liggur líka fyrir að stjórnarmynstrið er sérstakt áhugamál flokkseigenda flokkanna þriggja. Sumir þeirra reyndu með öllum tiltækum ráðum að koma á sams konar stjórn fyrir ári. Viðurnefnið „flokkseigendastjórnin“ er ekki úr lausu lofti gripið. Menn í þessum flokkum telja slíka ríkisstjórn best til þess fallna að efla þá hagsmuni sem eru þeim kærastir. Þar skjátlast þeim líklega ekki,“ segir Sigmundur Davíð í grein sinni.
Hann segir jafnframt að ljóst sé að starfandi formenn flokkanna þriggja þurfi allir á því að halda að komast í ríkisstjórn til að halda velli, þ.e. komast hjá því að verða settir af eða deyja (pólitískt) úr leiðindum. Óleyst sé þó gátan um einkar óvenjulega hegðun Sjálfstæðisflokksins.
„Formaður flokksins þráir nú að komast í ríkisstjórn með fólki sem hefur um langt skeið kallað hann glæpamann og öðrum verri nöfnum. Hann leitast við að koma til valda fólki sem gekk hart fram við að reyna að koma fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra í fangelsi, ásamt fjármálaráðherra flokksins. Auk þess áformar hann að brjóta blað með því að gera sósíalista að forsætisráðherra á Íslandi í fyrsta skipti. Full ástæða verður til að óska Katrínu Jakobsdóttur til hamingju með að ná þessum áfanga og að hafa tekist ætlunarverkið með því að beygja bæði grasrót eigin flokks og allan Sjálfstæðisflokkinn samtímis. Það er ekki lítið afrek,“ segir hann.