Árni Páll Árnason, fyrrverandi ráðherra, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, sem nú starfar sem ráðgjafi, segir að íslensk fyrirtæki þurfi að fylgjast grannt með álitamálum og hagsmunum er varða Brexit og samningaviðræður Breta við Evrópusambandið.
Ekki sé á vísan að róa um að aðgengi að breskum mörkuðum muni haldast jafn gott og það hefur verið með aðild að EES. Þó vonir standi til þess að svo verði, þá séu margir óvissufletir í samningaviðræðum Breta og ESB sem varði mikla hagsmuni fyrir íslenskt efnahagslíf.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri grein sem Árni Páll skrifar í Vísbendingu. Hann hóf birtingu á greinaflokki um Brexit í síðustu viku, og víkur í þessari útgáfu að þeim álitamálum sem snerta íslenskt efnahagslíf beint.
Hann hrósar utanríkisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir að halda hagsmunum Íslands á loftið í samskiptum við Breta. Þetta skipti miklu máli, og mikilvægt sé að halda áfram vel á spilunum.
„Við þessar aðstæður þurfa íslensk fyrirtæki auðvitað að hugsa sinn gang og gera viðbragðsáætlanir. Það er varhugavert að halda Brexit hljóti að fara vel og engar forsendur fyrir slíkri bjartsýni. Ef allt fer á versta veg í samningum Breta og ESB þurfum við að freista þess að gera sérstaka tvíhliða samninga við Breta. En á sama tíma er ekki margt sem íslensk stjórnvöld geta nú gert nema bíða átekta. Sú afstaða sem núverandi utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarsson, hefur markað í þessu efni er skynsamleg. Hann hefur nýtt hvert tækifæri til að ræða við breska ráðamenn og gætt þess að við gleymumst í það minnsta ekki og freistað þess að tryggja okkur í það minnsta sömu viðskiptakjör áfram,“ segir meðal annars í grein Árna Páls.